Þúsundir mótmæltu í Vínarborg

Herbert Kickl, þingflokksformaður Frelsisflokksins, ávarpar mótmælendur.
Herbert Kickl, þingflokksformaður Frelsisflokksins, ávarpar mótmælendur. AFP

Þúsundir komu saman í Vínarborg á laugardagskvöld til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum. Nokkrir voru handteknir fyrir brot á lögum um almannafrið og fyrir brot á umræddum sóttvarnareglum.

Margir mótmælenda báru ekki grímu né virtu fjarlægðartakmörk auk þess sem mun fleiri voru komnir saman er reglur leyfa. Til mótmælanna boðaði Frelsisflokkurinn, sem er yst á hægri væng austurrískra stjórnmála.

Slakað var á sóttvarnaaðgerðum í Austurríki í febrúar og voru skólar, verslanir og sögn opnuð á nýjan leik að því er segir í frétt AFP. Mótmælendur lýstu hins vegar óánægju sinni með þær reglur sem enn eru í gildi, svo sem lokun veitingastaða og kaffihúsa auk þeirra skilyrða að ungmenni fari í sýnatöku til að sækja tíma í skólum.

„Þetta er galið. Enginn Hollywood-leikstjóri gæti fundið upp á þessu,“ sagði Herbert Kickl, fyrrverandi innanríkisráðherra og liðsmaður Frelsisflokksins, um sóttvarnareglurnar þegar hann ávarpaði mótmælendur.

Nokkuð hefur verið um mótmæli af þessu tagi í Austurríki að undanförnu. Ríkisstjórnin hefur boðað að hægt verði að slaka frekar á aðgerðum, opna veitingastaði og kaffihús, í lok mars ef tilfellum veirunnar fækkar. 

Tilfellunum hefur hins vegar fjölgað lítillega síðustu daga en 2.500 greindust með veiruna á laugardag í landinu sem telur tæplega níu milljónir íbúa.

AFP
mbl.is