Átök á alþjóðlegum degi kvenréttinda

Um 15 lögreglumenn og minnst fjórir mótmælendur slösuðust í átökunum.
Um 15 lögreglumenn og minnst fjórir mótmælendur slösuðust í átökunum. AFP

Átök brutust út milli mótmælenda og lögreglu í Mexíkó í gær þegar ofbeldi gegn konum var mótmælt í tilefni alþjóðlega kvenréttindadagsins.

Samkvæmt frétt BBC komu þúsundir saman á Zócalo-torginu í Mexíkóborg til þess að mótmæla fjölda manndrápa gegn konum, eða kvendrápa (e. femicide) eins og þau eru gjarnan kölluð í Mexíkó, og almennu kynbundnu ofbeldi í landinu.

Mótmælendur munu hafa notað kylfur og önnur áhöld til þess að brjóta niður veggi sem reistir höfðu verið umhverfis forsetahöllina í aðdraganda mótmælanna.

Þá mun lögregla hafa reynt að meina einhverjum mótmælenda aðgang að Zócalo-torginu með notkjun lögregluskjalda. Mótmælendur gripu þá til sinna ráða og kveiktu í nokkrum skjaldanna.

AFP

Meðal þess sem lögregla beitti gegn mótmælendum var táragas og kylfur. Um 15 lögreglumenn og minnst fjórir mótmælendur slösuðust í átökunum. 

Ofbeldisfullum mótmælum gegn kynbundnu ofbeldi hefur fjölgað nokkuð í Mexíkóborg undanfarin misseri, en aðgerðasinnar segja það einu leiðina til að fá stjórnvöld til að hlusta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert