130 taldir af eftir sjóskaða

Mynd úr safni AFP af flóttafólki koma til lands á …
Mynd úr safni AFP af flóttafólki koma til lands á grískri eyju. AFP

Óttast er að 130 manns hafi drukknað fyrir utan strönd Líbíu í síðustu viku er bátur þeirra fórst í aftakaveðri. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Alþjóðlega fólksflutningastofnunin (IOM) segja að ekki hafi jafn margir farist í sjóslysi á þessum slóðum frá upphafi árs en það sem af er ári hafa að minnsta kosti 430 drukkað eða horfið á Miðjarðarhafi. Þetta er mikil aukning frá því í fyrra er 150 drukknuðu á flótta frá Líbíu yfir Miðjarðarhafið á leið til Evrópu.

IOM og UNHCR vara við því að væntanlega muni fleiri flóttamenn og hælisleitendur reyna að komast þessa hættulegu leið í nánast hvaða veðri sem er á sama tíma og aðstæður þeirra í Líbíu fara versnandi.

Í Líbíu sé flóttafólk sett í varðhald þar sem illa er farið með það. Það er arðrænt og beitt ofbeldi. Aðstæður sem þvinga það til þess að leggja af stað í hættulega ferð þar sem fullkomin óvissa ríkir um hvort fólk lifi ferðalagið af. 

Um var að ræða 130 flóttamenn sem lögðu af stað frá Al Khoms, sem er austur af Trípólí, á gúmmíbát. Hjálparsamtökin SOS Méditerranée sögðu að yfirvöld hefðu greint frá neyðarkalli frá bátnum snemma á miðvikudagsmorgun. Á fimmtudag hafi SOS Méditerranée og áhafnir fleiri skipa leitað á þessu svæði en aðeins fundust tíu lík á floti í kringum loftlausan gúmmíbátinn. Enginn fannst á lífi. Páfi fjallaði um afdrif flóttafólksins í messu á sunnudag. Þar lýsti hann bæði sorg og skömm yfir því að neyðarkalli þessa hóps, sem þvingaður var út í sína hinstu för, var ekki sinnt strax að því er segir í fréttum AFP-fréttastofunnar. 

Forsvarsmenn SOS Méditerranée segja að strax á þriðjudag hafi þau fengið tilkynningu um þrjá báta í vanda en viðvörunin hafi borist frá sjálfboðaliðum sem halda úti neyðarlínunni Alarm Phone. Áhöfn skips SOS, Ocean Viking, sem og fleiri hafi haldið af stað til að veita aðstoð en veðrið hafi verið skelfilegt og ölduhæðin allt að sex metrar. 

Fréttatilkynning UNHCR og IOM í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert