Afsalaði sér aðalstign vegna barnaníðsefnis

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Nýsjálenskur kaupsýslumaður, Ron Brierley, hefur afsalað sér riddaratign eftir að hafa játað vörslu barnaníðs. Skrifstofa forsætisráðherra hefur staðfest þetta við fjölmiðla.

Jacinda Ardern forsætisráðherra ætlaði að svipta Brierley heiðrinum í síðasta mánuði eftir að Brierley, sem er búsettur í Sydney, játaði að vera með myndir af kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum í fórum sínum. 

Sir Paul Reeves aðlar Sir Ron Brierley í maí 1988.
Sir Paul Reeves aðlar Sir Ron Brierley í maí 1988. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ardern segir að það hafi ekki verið gert þar sem hann hafi ritað Elísabetu Englandsdrottningu bréf þar sem hann tilkynnti að hann afsalaði sér riddaratign. Því má hann ekki lengur nota titilinn sir og verður að skila aftur heiðursmerkinu. 

Brierley, sem er 83 ára gamall, var handtekinn á flugvellinum í Sydney í desember 2019 og við leit í fartölvu hans fannst mikið magn af barnaníðsmyndefni sem og á hörðum diskum þegar leitað var í farangri hans. 

Fyrirtæki hans, Brierley Investments, var um tíma stærsta skráða félagið á Nýja-Sjálandi. Hann var aðlaður árið 1988 fyrir störf sín. 

Sjá nánar hér

mbl.is