Manndráp í Halden

Halden í Noregi, rúma 100 kílómetra suðaustur af Ósló. Kona …
Halden í Noregi, rúma 100 kílómetra suðaustur af Ósló. Kona á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu þar, grunuð um að hafa banað annarri manneskju í íbúð í miðbænum í gærkvöldi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Zairon

Kona á fimmtugsaldri var handtekin í Halden í Noregi í gærkvöldi, rúmlega 100 kílómetra suðaustur af Ósló, grunuð um að hafa banað annarri manneskju í íbúð í miðbænum, en lögregla verst allra frétta af kyni og aldri fórnarlambsins þar sem aðstandendum þess hefur ekki verið tilkynnt um atburðinn.

Anders Svarholt, lögmaður austurumdæmis norsku lögreglunnar, segir norska ríkisútvarpinu NRK að rannsóknin sé á viðkvæmu stigi og geti lögregla því ekki veitt miklar upplýsingar um atburðarásina. Hún hafi þó vopn undir höndum, sem talið sé að beitt hafi verið á vettvangi, en Svarholt vill ekki tjá sig um hvers kyns vopn þar er á ferð.

Neyðarlínunni AMK barst símtal um klukkan 22 að norskum tíma í gærkvöldi með tilkynningu um að látin manneskja væri í íbúðinni og héldu sex lögreglubifreiðar þegar á vettvang, sjúkrabifreiðar og slökkvilið auk þess sem sjúkraþyrla lenti í miðbænum í Halden kæmi til þess að flytja þyrfti særða á sjúkrahús í Ósló.

Heyrði öskur og hjálparkall

Var aðkoma með þeim hætti að lögregla rannsakar málið nú sem manndráp og var konan grunaða fljótlega handtekin og flutt á læknavakt vegna áverka sem hún bar.

Håvard Aas, aðgerðastjóri austurumdæmisins, segir tæknideild lögreglu nú við störf í íbúðinni en lögreglu sé ekki kunnugt um hve margir voru á staðnum þegar ódæðið var framið. Vinnur lögregla nú að því að fá framburði íbúa í nágrenninu og segir kona, sem NRK ræddi við, að hún hafi heyrt hróp frá íbúðinni.

„Ég heyrði öskur og að einhver kallaði á hjálp. Þetta hljómaði eins og átök upp á líf og dauða. Lögreglan kom svo örskotsstundu síðar og fór inn í íbúðina með skjöld á lofti,“ segir nágranninn og kveðst annar nágranni einnig hafa heyrt hrópað á hjálp áður en lögreglu bar að garði.

Norska dagblaðið VG greindi frá því í morgun að grunaða tengdist hinum látna eða hinni látnu. Þetta hefði lögregla staðfest, en vildi ekki tjá sig um í hverju þau tengsl fælust.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

mbl.is