„Aldrei séð neitt eins sjúkt“

Vegfarandinn sem tók þetta myndskeið í Kristiansand á þriðjudaginn ók …
Vegfarandinn sem tók þetta myndskeið í Kristiansand á þriðjudaginn ók nokkur hundruð metra á eftir strætisvagninum með „laumufarþegann“ aftan á og var þá á 50 km hraða, en leyfður hámarkshraði á hluta leiðarinnar var 60. Skjáskot/Myndskeið vegfaranda

Það sem virðist vera nýr ferðamáti unglinga í Kristiansand í Suður-Noregi vakti hvort tveggja óhug og athygli bæjarbúa í vikunni sem leið. Tóku vegfarendur þá myndskeið á síma sína af tveimur tilvikum, annars vegar í Vågsbygd og hins vegar á vegarkaflanum milli Nodeland og Hortemo, þar sem unglingspiltar héngu aftan á strætisvögnum bæjarins á allt að 60 kílómetra hraða.

Þeir sem til sást stóðu á örmjórri brík neðan við vélarhlíf bifreiðanna en héldu sér í efri brún hennar. „Ég hef aldrei séð neitt eins sjúkt í umferðinni,“ segir ökumaður, sem sendi myndskeið af ferðalagi unglingsins í Vågsbygd, í samtali við dagblaðið Fædrelandsvennen.

Í myndskeiðinu beinir maðurinn linsunni í örskotsstund að hraðamæli bifreiðarinnar sem sýnir 50 km hraða miðað við klukkustund, sama hraða og strætisvagninn á undan honum ók á. „Ég óttaðist að hann dytti af. Þar hefði orðið lífsháski, ég hefði getað ekið á hann,“ segir ökumaðurinn sem varð samferða vagninum nokkur hundruð metra vegalengd þar til leiðir skildi við hringtorg.

Ólöglegt og háskalegt

Ole Bjørn Kleivane, varðstjóri í lögreglunni í Kristiansand, kvað lögreglunni ekki hafa borist neinar formlegar tilkynningar um atvikið frá vegfarendum og var að heyra um það í fyrsta sinn frá blaðamanni Fædrelandsvennen. „Þetta er hvort tveggja ólöglegt og háskalegt,“ sagði hann í samtali á þriðjudaginn.

Boreal Norge, sem rekur strætisvagnana í Kristiansand og víðar, hafði heldur ekki fengið neinar tilkynningar. „Það er svo gott sem útilokað fyrir vagnstjórann að uppgötva þetta,“ segir Jon Kristian Fadnes, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, í samtali við Fædrelandsvennen og kveður tiltækið hið versta mál. „Auk þess að stefna sjálfum sér í lífshættu getur viðkomandi komið ökumanni strætisvagnsins og öðrum ökumönnum í erfiða stöðu,“ segir Fadnes.

Hinn farþeginn hékk aftan á strætisvagni á leið til Hortemo …
Hinn farþeginn hékk aftan á strætisvagni á leið til Hortemo þar sem ökumaðurinn sem tók þessa mynd náði tali af vagnstjóranum en sá sem farið þáði hvarf í hóp jafnaldra sinna sem streymdu út úr vagninum á biðstöð. Ljósmynd/Vegfarandi

Annar vegfarandi, rúmlega þrítugur fjölskyldufaðir, varð vitni að sömu háttsemi síðar sama dag á áðurnefndum kafla milli Nodeland og Hortemo og hafði þá skömmu fyrr lesið um hitt tilfellið í fjölmiðlum. „Sé þetta nýjasta tískan í samgöngum finnst mér það óhugnanlegt, rekstraraðili strætisvagnanna þarf að gera eitthvað í málinu ef svo er.“

Viljum ekki sjá þetta

„Farþeginn“ hafi svo stokkið af á biðstöð í Hortemo og ökumaðurinn þá stöðvað bifreið sína og tekist að ná tali af vagnstjóranum. Sá hafi hins vegar ekki verið sterkur á svellinu í norskunni og því óvíst, að sögn viðmælanda Fædrelandsvennen, hve mikið af upplýsingunum komst til vitundar hans. Laumufarþeginn hafi hins vegar horfið í stóran hóp jafnaldra sinna sem steig af vagninum á biðstöðinni.

Fadnes upplýsingafulltrúi segir Boreal hafa sent út tilkynningar um atvikin tvö til allra vagnstjóra sinna og beðið þá að vera á varðbergi. „Að lokum hvetjum við fólk bara til að gera þetta alls ekki. Þetta er lífshættulegt, óþarft og heimskulegt. Við viljum ekki sjá þetta.“

Fædrelandsvennen

FædrelandsvennenII

VGTV

mbl.is