Einn eftir í hverfinu

Hundrað og fjörutíu þúsund pund duga Carl Harris skammt til …
Hundrað og fjörutíu þúsund pund duga Carl Harris skammt til að eignast svipað húsnæði. AFP

Breskur karlmaður sem býr í yfirgefnu hverfi í borginni Birmingham er enn ekki sáttur við þau tilboð sem borgaryfirvöld hafa lagt fram til að kaupa af honum húsið. Maðurinn, hinn 64 ára gamli Carl Harris, er eini íbúinn sem býr við Gildas Avenue í borginni.

Borgarráðið í Birmingham stefnir að miklum breytingum í hverfinu og hyggst byggja ný hús í stað þeirra gömlu sem standa nú ein og yfirgefin, fyrir utan húsið hans Harris þar sem hann hefur búið sl. þrjá áratugi.

Borgaryfirvöld hafa boðið honum 140.000 pund, sem jafngildir um 25 milljónum kr., fyrir fasteignina, en Harris segir að hann þurfi að minnsta kosti 200.000 pund, sem samsvarar um 35 milljónum kr., til að geta keypt sér sambærilegt fjögurra herbergja húsnæði, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Borgarráðið vonast til að geta náð samkomulagi við Harris. Ef ekki, komi til álita að beita úrræði sem yfirvöld hafa til að þvinga fólk til að selja fasteignir til að geta haldið áfram með fyrirhugaða uppbyggingu. Aðeins er hægt að beita slíku úrræði séu framkvæmdirnar með almannahagmuni að leiðarljósi.

Harris hefur fengið nokkur tilboð frá borginni, en fyrsta tilboð hljóðaði upp á 95.000 pund. Það var svo hækkað í 120.000 pund og nú síðast 140.000 pund. Fram kemur í umfjöllun BBC um málið að sambærilegt húsnæði í hverfinu hafi verið að seljast á um 230.000 pund.

Harris segir að ef borgin hefði boðið honum 140.000 pund fyrir þremur til fjórum árum hefði hann getað fundið sér svipaða fasteign á því verði. Það sé hins vegar breytingum háð sem og þau tilboð sem hafa borist frá borgaryfirvöldum.

Borgin stefnir á að rífa öll húsin í hverfinu og reisa þar 117 ný hús. Harris segir að þau séu talsvert minni en húsið hans og að verðmiðinn á nýju húsunum sé 200.000 pund. Ætli hann sér að finna sambærilega eign og hann býr í í dag sé líklegur verðmiði nær 400.000 pundum.

Á meðan ekkert samkomulag hefur náðst verður Harris áfram einn í hverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert