Tvennt myrt í götunni

Lademoen-hverfið í Þrándheimi í forgrunni. Íbúar þar krefjast úrbóta vegna …
Lademoen-hverfið í Þrándheimi í forgrunni. Íbúar þar krefjast úrbóta vegna fjölda félagslegra íbúða í hverfinu, en þær eru alls 400. Tvennt hefur verið myrt þar við sömu götuna síðasta eina og hálfa árið. Ljósmynd/Store norske leksikon/Knut A. Rosvold

Íbúar við Østersunds gate í Lademoen-hverfinu í Þrándheimi í Noregi eru uggandi og það eru borgaryfirvöld einnig. Maður á sextugsaldri, sem lögregla hefur nú nafngreint sem Stig Ola Westgård og fannst látinn og að öllum líkindum myrtur á laugardaginn á heimili annars, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, er annað fórnarlamb manndrápsmála við götuna á hálfu öðru ári.

Í október 2019 kom lögregla á vettvang í íbúð, aðeins 40 metra frá þeirri sem málið nú snýst um, þar sem tæplega fertug kona, Cathrine Sand, hittist fyrir, þungt haldin af stunguáverka á brjósti og lést á sjúkrahúsi nokkrum klukkustundum síðar. Í nóvember í fyrra var 47 ára gamall maður, sem taldist ekki hafa verið sakhæfur ástands síns vegna þegar hann veitti Sand áverkann, dæmdur til að sæta gæslu á viðeigandi stofnun – í þriðja sinn á ævinni.

Við Østersunds gate eru fjölmargar félagslegar íbúðir sem borgin útvegar þeim þegnum sínum sem hve höllustum fæti standa í mannlegri tilveru. Þar er einnig leikskóli og nágrannar sem þykir ástandið í hverfinu æ ískyggilegra.

Börnin skilja hvað er að gerast

„Okkur finnst þetta óhugnanlegt. Hér býr fólk sem er ekki alltaf í góðu jafnvægi og maður veit aldrei inn um hvaða hlið það gengur. Fyrr en varir er það komið inn á leikskólann okkar,“ segir Gøril Linge Five, forstöðukona leikskólans, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Kveðst hún mestan kvíðboga bera fyrir því að börn þurfi að alast upp í slíku umhverfi. Ekki sé nema á annað ár síðan börnin þurftu að fylgjast með manndrápsrannsókn rétt við heimili sín, fólki í hvítum samfestingum sem athafnaði sig handan lokunarborða merktum lögreglu. „Þau skilja hvað er að gerast og það hefur áhrif á þau,“ segir forstöðukonan og bætir því við að óróinn sé mikill í Lademoen og lögregluútköllin tíð.

„Þetta er dapurlegt ástand og að búa í návígi við atburði á borð við þessa elur á óöryggi,“ segir Wenche Dehli, heilbrigðis- og félagsmálafulltrúi í Þrándheimi, en báðar íbúðirnar, sem nýlega hafa orðið vettvangur manndráps, eru í eigu borgarinnar og deilumálin ófá síðustu ár, sem snúast um hvort félagslegar íbúðir skuli aðeins vera á afmörkuðu svæði eða þá dreifast um alla borg.

Félagslegar íbúðir í Þrándheimi eru 4.000 talsins, 400 þeirra, tíundi hlutinn, eru í Lademoen-hverfinu.

Arfleifð eldra kerfis

„Þetta er arfleifð gömlu húsnæðisstefnunnar þegar borgin keypti heilu fjölbýlishúsin og bauð hjálparþurfi einstaklingum og fjölskyldum íbúðir þar. Kerfi sem nú er löngu niðurlagt, en það tekur tíma að breyta því sem orðið er,“ segir Dehli.

Íbúar Lademoen hafa áður beðist umbóta af hálfu borgaryfirvalda Þrándheims, til dæmis í kjölfar vígs Cathrine Sand. Þriðja mars á þessu ári svaraði borgin því til að málefni Lademoen yrðu sett í forgang. Jan Olav Staume, formaður hverfisráðsins, segir hins vegar að síðan hafi lítið gerst.

„Borgin er ekki bara gestgjafi, hún er fasteignaeigandi. Á yfirvöldum hvílir sú ábyrgð að göturnar séu öruggar og að skapa umhverfi sem fýsilegt er að búa í,“ segir Staume og bætir því við að í Lademoen séu félagslegu íbúðirnar allt of margar, til dæmis séu fíkniefni seld á götum úti um hábjartan dag í hverfinu. „Hér býr fjöldi fólks sem er að koma úr neyslu, út úr refsivörslukerfinu og af stofnunum. Þetta eru ekki bara barnmargar fjölskyldur sem ná ekki endum saman og þurfa félagslegt húsnæði,“ segir hann enn fremur.

Hlýtt sé á þá sem segja frá

Og víðar eru málefni hverfisins rædd. Silje Salomonsen, borgarfulltrúi Vinstri sósíalistaflokksins (Sosialistisk venstreparti, SV) í Þrándheimi, spurði Helge Garåsen, forstöðumann heilbrigðisstofnunar borgarinnar, í gær hver stefnan væri með Lademoen. Salomonsen segist í samtali við NRK hafa verulegar áhyggjur af stöðu mála og nú sé aðgerða þörf.

„Nú ríður á að sýna þeim sem þarna búa við óöryggi að okkur sé alvara. Eins vil ég benda á nauðsyn þess, að hlýtt sé á rödd þeirra sem segja frá óviðunandi ástandi,“ segir borgarfulltrúinn.

NRK

Trondheim24

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert