Sex létu lífið í sprengingu í Pakistan

Minnst sex létu lífið og fjórtán særðust í sprengjuárás í …
Minnst sex létu lífið og fjórtán særðust í sprengjuárás í suðvestur Pakistan á föstudag. AFP

Minnst sex létu lífið og fjórtán særðust í sprengjuárás í borginni Chaman við landamæri Pakistans og Afganistans fyrr í dag. Árásin beindist að mótmælum sem haldin voru til samstöðu með Palestínumönnum. 

Samkvæmt Ahmad Mohiuddin, yfirlögregluþjóni svæðisins, hafði sprengjuefni verið komið fyrir í mótorhjóli sem svo var lagt í nálægð við bifreið trúarleiðtoga sem tekið hefur virkan þátt í óeirðunum í Chaman en borgin er í svonefndu Balúkistan-héraði.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á sprengingunni.

Nokkrum klukkutímum eftir að vopnahléi var lýst yfir milli Ísrael og íslömsku andspyrnuhreyfingarinnar Hamas, flykktust þúsundir manna á götur helstu borga Pakistans til að sýna Palestínumönnum stuðning að lokinni bænastund á föstudögum, en föstudagar eru sérstaklega helgir í íslamstrú. 

Föstudagsbænir og samkomur að þeim loknum laða vanalega að sér stóran hóp af fólki og eru árásir á slíkar trúarlegar samkomur algengar í Pakistan. 

„Hryðjuverkamenn eiga enga miskunn skilið. Við munum ekki leyfa þeim að koma á lögleysu í neinu héraði,“ sagði Jam Kamal, yfirráðherra Balúkistans-héraðs.

Öryggisfulltrúar virða fyrir sér vettvanginn þar sem sprengingin átti sér …
Öryggisfulltrúar virða fyrir sér vettvanginn þar sem sprengingin átti sér stað. AFP
Á myndum frá vettvangi má sjá glerbrot, rústir og blóðslettur.
Á myndum frá vettvangi má sjá glerbrot, rústir og blóðslettur. AFP
Mótmælendur bera flögg og hrópa slagorð til stuðnings Palestínu á …
Mótmælendur bera flögg og hrópa slagorð til stuðnings Palestínu á mótmælafundi íslömsku andspyrnuhreyfingarinnar. AFP
mbl.is