Börnum í vinnu fjölgar í fyrsta sinn í tvo áratugi

Barn sækir eldivið í Kongó í október 2020.
Barn sækir eldivið í Kongó í október 2020. mbl.is/UNICEF

Börnum í vinnu hefur fjölgað um rúmar átta milljónir á síðustu fjórum árum. 160 milljónir barna eru nú í vinnu og níu milljónir barna gætu bæst við hópinn fyrir lok ársins 2022 vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, þá helst skólalokana og efnahagsþrenginga.

Þetta er í fyrsta sinn sem árangur í baráttunni gegn barnavinnu snýst við á tuttugu árum, en börnum í vinnu hafði fækkað um 94 milljónir á milli 2000 og 2016.

Barnavinna hefur margvísleg skaðleg áhrif. Hún hindrar börn í að sækja skóla, takmarkar framtíðarmöguleika þeirra, ógnar í mörgum tilfellum öryggi þeirra og heilsu og leiðir til og viðheldur hringrás fátæktar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Í Kongó vinna um 40 þúsund börn í námum, flest …
Í Kongó vinna um 40 þúsund börn í námum, flest að vinna kóbalt fyrir farsíma og rafmagnsbíla. mbl.is/UNICEF

Sérstök fjölgun barna í hættulegri vinnu

Sérstök fjölgun hefur orðið á börnum í hættulegri eða skaðlegri vinnu. 6,5 milljónir barna hafa bæst í þann hóp frá árinu 2016 sem telur nú alls 79 milljónir barna á heimsvísu. Meirihluti barna sem vinna er á aldrinum 5 til 11 ára.

„Við erum að tapa niður árangri í baráttunni gegn barnavinnu, og síðasta árið hefur ekki auðveldað okkur vinnuna,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.

„Nú á öðru ári útgöngubanna, lokunar skóla, efnahagsþrenginga og minna fjárhagslegs svigrúms ríkisstjórna eru fjölskyldur neyddar til að taka mjög erfiðar ákvarðanir. Við biðlum til ríkisstjórna og alþjóðlegra þróunarbanka að forgangsraða fjárfestingum í aðgerðir sem losa börn undan vinnu og koma þeim aftur í skóla og sem veita fjölskyldum öryggisnet og koma í veg fyrir að þær þurfi að taka þessar ákvarðanir.“

Unglingsdrengur situr fyrir utan verkstæðið þar sem hann vinnur, á …
Unglingsdrengur situr fyrir utan verkstæðið þar sem hann vinnur, á iðnaðarsvæði í Írak. mbl.is/UNICEF

Barnavinna mest í landbúnaði

Tæpur þriðjungur barna í vinnu á aldrinum 5 til 11 ára er ekki í skóla og rúmur þriðjungur barna á aldrinum 12 til 14 ára. 70 prósent barnavinnu fer fram í landbúnaði, 20 prósent í þjónustu og tíu prósent í iðnaði. Þá er nærri þrefalt meira um barnavinnu í dreifbýli heldur en í þéttbýli.

mbl.is