Bercow skiptir um flokk

Bercow vakti athygli sem forseti þingsins.
Bercow vakti athygli sem forseti þingsins. AFP

John Bercow, fyrrverandi forseti neðri deildar breska þingsins, hefur yfirgefið Íhaldsflokkinn og gengið til liðs við Verkamannaflokkinn. Frá þessu greinir hann í viðtali sem birtist í dagblaðinu Observer í dag.

Gagnrýnir hann Íhaldsflokkinn undir stjórn forsætisráðherrans Boris Johnsons og segir hann popúlískan og þjóðernissinnaðan, auk þess sem stundum lýðist þar jafnvel útlendingahatur.

Skipta þurfi út ríkisstjórninni

Bercow, sem lét af störfum sem forseti þingsins í október 2019 eftir að hafa gegnt því embætti í tíu ár, segist hafa gengið í Verkamannaflokkinn þar sem hann deili sömu gildum.

„Ég er knúinn áfram af stuðningi við jafnrétti, samfélagslegt réttlæti og alþjóðahyggju. Það er merki Verkamannaflokksins,“ segir hann í viðtalinu.

„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að skipta þurfi út þessari ríkisstjórn. Raunveruleikinn er sá að Verkamannaflokkurinn er sá eini sem getur náð því markmiði. Það er enginn annar trúverðugur valkostur.“

Þyrsti ekki í félagslegan hreyfanleika

Hann bætir við að Johnson sé góður í kosningaherferðum en lélegur þegar komi að því að stýra landinu.

„Ég held að hann hafi ekki neina sjón uppi um samfélag með meira jafnræði, nokkurn þorsta í félagslegan hreyfanleika, né einhverja ástríðu til að bæta hag þess fólks sem hefur farnast verr en honum sjálfum.“

Áður en Bercow tók við sem forseti þingsins sat hann sem þingmaður Íhaldsflokksins fyrir Buckingham í tólf ár. Hann varð svo árið 2009 sá yngsti til að gegna embætti þingforseta í hundrað ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert