Hart sótt að fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur látið frjálsa fjölmiðla í landinu …
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur látið frjálsa fjölmiðla í landinu finna fyrir því. AFP

Hvítrússnesk yfirvöld hafa meinað starfsfólki aðgang að elstu fréttastofu landsins, Nasha Niva, auk þess sem liðsmenn leyniþjónustunnar, KGB, réðust til inngöngu á skrifstofur nokkurra héraðsdagblaða. Þetta er liður í aðgerðum Alexanders Lúkasjenkós, forseta Hvíta-Rússlands, sem beinast gegn fjölmiðlum sem heyra ekki undir stjórn ríkisins. 

Yfirvöld lokuðu m.a. vefútgáfu Nasha Niva, en þau saka miðilinn um að hafa birt ólöglegt efni. Fóru liðsmenn KGB einnig inn á skrifstofur fjölmiðilsins. Stjórnvöld í fyrrum Sovétlýðveldinu hafa undanfarna mánuði sótt hart að þeim sem hafa gagnrýnt yfirvöld opinberlega. 

Í gær var einn af helstu andstæðingum Lúkasjenkós, Viktor Babaríjko, dæmdur í 14 ára fangelsi.

Nasha Niva var stofnað árið 1906 á tímum rússneska keisaradæmisins. Forsvarsmenn miðilsins hafa greint frá því á samfélagsmiðlum að þeir hafi misst sambandið við nokkra starfsmenn, þar á meðal ritstjórann Jegor Martínovitsj. Eiginkona hans hefur staðfest í færslu á Facebook að hann hafi verið tekinn höndum. 

Vefurinn, sem hefur tekið undir málstað stjórnarandstöðunnar, hafði fjallað um fjölmörg fjöldamótmæli sem beindust gegn forsetanum í fyrra. Síðan þá hafa margir starfsmenn blaðsins verið yfirheyrðir af yfirvöldum eða jafnvel dvalið um tíma á bak við lás og slá. 

Svetlana Tsíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hvatti alþjóðasamfélagið til að styðja við …
Svetlana Tsíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hvatti alþjóðasamfélagið til að styðja við bakið á óháðum fjölmiðlum og blaðamönnum í landinu. AFP

Svetlana Tsíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem heimsótti m.a. nýverið Ísland, sagði í færslu á Twitter að Nasha Niva væri ekki aðeins vefsíða heldur „elsta dagblað Hvíta-Rússlands“. 

Hún hvatti alþjóðasamfélagið til að styðja við bakið á óháðum fjölmiðlum og blaðamönnum í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert