Fannst látinn í Lørenskog

Sex manns eru í haldi norsku lögreglunnar eftir að maður …
Sex manns eru í haldi norsku lögreglunnar eftir að maður á sextugsaldri fannst látinn í íbúð í Fjellhamar í Lørenskog upp úr miðnætti í nótt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sex manns eru í haldi lögreglu eftir að maður á sextugsaldri fannst látinn í íbúð í Fjellhamar í Lørenskog, skammt frá Ósló í Noregi, í nótt. Frá þessu greinir lögreglan í fréttatilkynningu sem send var út nú fyrir skömmu, en þar kemur ekki fram hvers konar grunur beinist að hinum handteknu. Norska ríkisútvarpið NRK hefur þó fengið staðfest að minnst einn þeirra sé grunaður um manndráp.

Lögreglu barst tilkynning frá neyðarlínu upp úr miðnætti í nótt um mann sem væri alvarlega sár, að öllum líkindum eftir líkamsárás, en sjúkrabifreið var þá komin á vettvang. Nokkrum mínútum síðar barst tilkynning um að maðurinn væri látinn.

Glöggvar sig á atburðarásinni

Lokaði lögregla allstóru svæði í Fjellhamar vegna rannsóknar málsins og voru tæknimenn hennar enn að störfum á vettvangi í morgun. Lögregla vill ekki greina frá tengslum hins látna við þá sem nú sitja í haldi, en John Skarpeid, lögmaður á ákærusviði lögreglunnar, segir í samtali við norska dagblaðið VG að lögregla sé að glöggva sig á atburðarásinni eftir að hafa rætt við fjölda vitna, þar á meðal íbúa í nágrenninu.

„Það eina sem ég get staðfest að við höfum grunaðan árásarmann í haldi,“ segir Skarpeid við NRK, „núna biðjum við um frið og ró til að vinna í málinu,“ bætir hann við og segir auk þess að þeim, sem helst er grunaður í málinu, hafi ekki verið útvegaður verjandi enn sem komið er.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

mbl.is