Öllum takmörkunum aflétt í Danmörku

Öllum takmörkunum vegna kórónuveirunnar hefur nú verið aflétt í Danmörku. Grímuskylda og fjarlægðatakmörk heyra því sögunni til.

Covid-19 sjúkdómurinn er ekki lengur skilgreindur þar í landi sem svo að hann ógni samfélaginu heldur sem sjúkdómur sem telst almennt hættulegur. Heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke greindi frá þessu nú nýlega.

Með nýrri skilgreiningu sjúkdómsins er Covid-19 sjúkdómurinn nú flokkaður með fjölda annarra sjúkdóma líkt og ebólu.

Ekki lengur grundvöllur fyrir takmörkunum

Að sögn Jens Lundgrend, prófessors í smitsjúkdómum og yfirlæknis á Ríkisspítalanum í Danmörku, er því ekki lengur fyrir hendi grundvöllur fyrir takmörkununum. Hann segir bólusetningar hafa verið áhrifaríkar til að takast á við faraldurinn og að þær hafi minnkað hættu á alvarlegum veikindum.

Heilbrigðisráðherra Danmerkur getur þó enn komið á takmörkunum ef kórónuveiran fer úr böndunum en mun hann þá þurfa stuðning meirihluta þingsins. Auk þess væri hægt að loka skólum vegna útbreiðslu smita.

Frétt á vef DR.

mbl.is