Hvetja fólk til að losa sig við kínverska síma

Litháen varar við kínverskum símum líkt og Huawei.
Litháen varar við kínverskum símum líkt og Huawei. AFP

Varnarmálaráðuneyti Litháen varar við kínverskum símum og hvetur eigendur slíkra síma til að henda þeim og forðast það að kaupa sér þá á nýjan leik. Þetta segir á vef BBC.

Netöryggisnefnd Litháen kannaði 5G síma frá kínverskum framleiðendum. Komist var að þeirri niðurstöðu að einn sími frá Xiaomi væri með innbyggt ritskoðunartæki og að ein útgáfa Huawei síma gæti verið viðkvæm fyrir netöryggisárásum. Huawei hefur í kjölfarið sagt að engin gögn frá notendum séu send úr símunum.

„Okkar ráðlegging er að kaupa ekki kínverska síma og að losa sig við þá sem hafa þegar verið keyptir eins hratt og mögulegt er,“ sagði varnarmálaráðherranna Margiris Abukevicius. 

Ritskoða ýmis hugtök

Í Mi 10T 5G símanum frá Xiaomi reyndist vera búnaður sem gæti greint og ritskoðað ýmis hugtök þar á meðal: „Frelsið Tíbet,“ og „Lengi lifi sjálfstæði Taívan.“ Meiri en 449 hugtök geta verið ritskoðuð af símanum.

Í Evrópu hefur verið slökkt á ritskoðunarbúnaðinum en skýrslan frá Litháen færir rök fyrir því að hægt sé að kveikja aftur á búnaðinum. 

Einnig fannst galli í P40 5G síma Huawei. AppGallery í Huawei símum, þar sem hægt er að versla símaforrit, vísar notendum í netverslun þriðja aðila en sum forritin sem fást þar hafa verið metin af vírusvarnarforritum sem skaðleg,“ sagði í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytinu.

„AppGallery safnar einungis og vinnur þau gögn sem eru nauðsynleg til að leyfa viðskiptavinum Huawei að leita að, setja upp og stjórna forritum frá þriðja aðila, á sama hátt og aðrar netverslanir með símaforrit. Huawei framkvæmir einnig öryggisathuganir til að tryggja að notandinn sæki aðeins forrit sem eru örugg, sagði talsmaður frá Huawei. 

Spenna á milli landanna tveggja

Spenna milli Litháen og Kína hefur aukist. Í síðasta mánuði krafðist Kína þess að Litháen myndi fjarlægja sendiherra sinn frá Peking og sögðust myndu fjarlægja kínverska sendiherrann úr Vilníus. 

Spennan milli landanna tveggja hófst þegar Taívan tilkynnti að verkefni sín í Litháen myndu heyra undir fulltrúaskrifstofu Taívan. Önnur sendiráð Taívan í Evrópu notast við heiti höfuðborgarinnar, Tæpei, svo ekki sé minnst á eyjuna sjálfa en Kína fullyrðir að eyjan sé undir þeirra yfirráðum.

mbl.is