Engir jólamarkaðir í Bæjaralandi

Jólamarkaður í München, Bæjaralandi.
Jólamarkaður í München, Bæjaralandi. AFP

Nýjar takmarkanir í Bæjaralandi, í Þýskalandi, til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar hafa verið kynntar. Engir jólamarkaðir verða leyfðir og aðeins fimm mega koma saman.

Reglunar munu taka gildi næsta miðvikudag og gilda til 15. desember.

Í Bæjaralandi búa 13 milljónir en þar er að finna eitthvert lægsta bólusetningarhlutfall í Þýskalandi á sama tíma og fjöldi innlagna á sjúkrahús er með þeim mesta í landinu. „Ástandið er yfirþyrmandi og það heldur áfram að stigmagnast,“ sagði Markus Söder, ríkisstjóri Bæjaralands. 

Aflýsing jólamarkaðanna, sem átti að opna í næstu viku, er að sögn The Guardian mikið högg fyrir bæði almenning og sölumenn, annað árið í röð. Markaðina sækir fjöldi fólks ár hvert.

Þá hefur fjöldi fólks sem má koma saman verið takmarkaður við fimm manns frá mest tveimur heimilum.

Verða að sýna fram á bólusetningu

Verslanir mega aðeins taka á móti einum viðskiptavini á hverja tíu fermetra og þá verða þeir sem sækja tónlistarskóla, hárgreiðslustofur, íþrótta- og menningarviðburði að sýna fram á bólusetningu eða staðfestingu á fyrri sýkingu. Sama mun gilda um veitingastaði en þeir verða að loka dyrum sínum klukkan tíu á kvöldin.

„Fyrst og fremst koma takmarkanirnar til með að hafa áhrif á óbólusetta. Það er veruleg áhætta að vera óbólusettur,“ sagði Söder.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert