Fólk slasaðist í öflugum skjálfta sem olli tjóni

Afar kraftmikill jarðskjálfti varð á norðurhluta Perú í dag, en hann mældist vera 7,5 að stærð. Skjálftinn olli víða eyðileggingu, en kirkjuturn er á meðal þess sem hrundi. Þá hafa að minnsta kosti 10 manns slasast og víða fundu menn fyrir skjálftanum og höggbylgjunni sem fylgdi. 

Skjálftinn varð  kl. 05:52 í morgun að staðartíma, eða kl. 10:52 að íslenskum tíma. Hann varð á 131 km dýpi að sögn jarðvísindastofnunarinnar í Perú. 

Almannavarnir í landinu segja að a.m.k. 10 hafi slasast sem fyrr segir og að 75 hús hafi eyðilagst. 

Þá hafa einnig borist fréttir af eyðileggingu í nágrannaríkinu Ekvador. 

Skjálftamiðjan var um 98 km vestur af smábænum Santa Maria de Nieve sem tilheyrir Amazon-hluta Perú. Það svæði er mjög dreifbýlt og meirihluti íbúanna eru frumbyggjar. 

„Þetta var svakaleg hreyfing,“ sagði Hector Requejo, bæjarstjóri Santa Maria de Nieve, í samtali við útvarpsstöðina RPP. Hann sagði ennfremur að viðar- og steinbyggingar á svæðinu hafi hrunið. 

Þá féll, sem fyrr segir, 14 metra hár gamalll kirkjuturn í héraðinu La Jalca. Þá fór rafmagn af stóru svaði og sumstaðar lokuðust vegir í kjölfar grjóthruns. 

mbl.is