Simpsons-þáttur tekinn úr umferð í Hong Kong

Notandi skoða Simpson-þætti í Disney+ appinu í Hong Kong þar …
Notandi skoða Simpson-þætti í Disney+ appinu í Hong Kong þar sem umræddan þátt er hvergi að sjá. AFP

Einn þáttur um Simpsons-fjölskylduna er ekki lengur í boði í streymisveitunni Disney+ í Hong Kong, en í umræddum þætti heimsækir fjölskyldnan Tiananmen-torg, eða Torg hins himneska friðar, í Peking í Kína. Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar að þetta sé liður kínverskra stjórnnvalda til að auka ritskoðun í borginni. 

Kínversk yfirvöld hafa hert aðgerðir til að stöðva allt andóf í borginni sem og setja skorður við tjáningarfrelsið, en kínversk stjórnvöld hafa beitt sér gegn alþjóðlegum fjölmiðla- og tæknifyrirtækjum.

Disney+ hefur sótt hratt fram eftir að hafa verið sett á laggirnar fyrir um það bil 18 mánuðum, en veitan er nú með um 116 milljónir áskrifenda á heimsvísu. 

Disney+ í Hong Kong hóf starfsemi fyrr í þessum mánuði og hafa nokkrir skarpir viðskiptavinir tekið eftir því að það vanti tólfta þáttinn í 16. þáttaröð. Hann fór fyrst í loftið árið 2005 og fjallar um heimsókn Simpsons-fjölskyldunnar til Kína þar sem systir Marge Simpsons reynir að ættleiða barn. 

Í einu atriði þáttarins stendur fjölskyldan við Tiananmen-torg þar sem blóðug mótmæli fóru fram árið 1989 þar sem kínversk stjórnvöld beittu hervaldi til að stöðva mótmæli stúdenta sem kröfuðst aukins lýðræðis. Í þættinum sést skilti sem á stendur: „Á þessum degi árið 1989 gerðist ekki neitt“ sem er hárbeitt ádeila á aðferðir kínverskra stjórnvalda til að þurrka út úr minningunni það sem raunverulega gerðist. 

Þá sést systir Marge standa fyrir framan skriðdreka sem er vísun í fræga ljósmynd af einum mótmælanda sem stóð fyrir fram röð skriðdreka.  

í þættinum er einnig fjallað um Tíbet, þar sem Kína er sakað um að ofsækja trúarhópa, og kínversku menningarbyltinguna, sem hófst fyrir rúmri hálfri  öld, þegar Mao Zedong, leiðtogi Kína, gerði tilraun til að gjörbreyta kínversku samfélagi með þeim afleiðinum að mikið af kínverskum menningarverðmætum glötuðst og glundroði varð í kínversku samfélagi. 

Ekki liggur fyrir hvort  Disney+ hafi fjarlægt þáttinn  að beiðni kínverskra yfirvalda eða hvort veitan hafi boðist til að gera það að fyrra bragði. 

Talsmenn Disney+ hafa ekki tjáð sig um málið og sömu sögu er að segja um stjórnvöld í Hong Kong. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert