Hlaut fangelsisdóm vegna kjötböku

Kokkur á kránni Crewe Arms í Northamptonshire í Englandi hlaut …
Kokkur á kránni Crewe Arms í Northamptonshire í Englandi hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm vegna mistaka í eldhúsinu. AFP

Kokkur í smáþorpinu Hinton-in-the-Hedges í Englandi var á dögunum dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi eftir að kona lést og 31 til vioðbótar varð veikur af matareitrun vegna kjötböku sem hann matreiddi.

Breska blaðið The Guardian greinir frá þessu.

Atvikið átti sér stað þegar að kirkjusöfnuður í Northampshire í Englandi kom saman á krá til að snæða saman kvöldverð. Á boðstólum var meðal annars kjötbaka sem kokkurinn hafði bakað. Í miklum hamagangi hafði Croucher yfirsést að hakkið var ekki eldað í gegn áður en það fór í bökuna og hún borin fram. 

Einungis þrjár grænmetisætur sluppu með skrekkinn af þeim 35 gestum sem voru viðstaddir kvöldverðinn en 31 hlutu matareitrun og kona á tíræðisaldri lést.

Betri kokkur fyrir vikið

Kokkurinn, John Croucher, játaði að hafa farið á mis við matvælareglur þegar hann matreiddi bökuna í miklu óðagoti og var hann í kjölfarið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og vikið úr starfi í allt að 12 mánuði vegna atviksins. 

„Ég hata að segja það, ég virkilega hata að segja það en ég held að ég hafi verið að flýta mér. Ég var að flýta mér,“ sagði Croucher og bætti við að þetta sé atvik sem hann muni aldrei gleyma. Fyrir vikið sé hann betri kokkur þó að fórnarkostnaðurinn hafi verið mikill og sé það miður.

Vildu ekki að kránni yrði refsað

Í dómnum kemur fram að fólkið í söfnuðinum hafi ekki farið fram á refsingu vegna atviksins. Voru þá margir vissir að mistökin væru einsdæmi.

Dómarinn var þó ekki alveg jafn sannfærður og vísaði til þess að heilbrigðiseftirlitið hefði veitt kránni þrjár stjörnur í eftirliti árið 2015. Tveimur árum síðar hefði kráin þó einungis fengið eina stjörnu. Hefði staðurinn átt að leita leiða til að betrumbæta sig, sem augljóslega var ekki gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert