Hvítstakkar komu upp „skuggaheilbrigðiskerfi“

Tveir mjanmarskir hjúkrunarfræðingar gá að niðurstöðum kórónuveirusýna í smábæ þar …
Tveir mjanmarskir hjúkrunarfræðingar gá að niðurstöðum kórónuveirusýna í smábæ þar í landi, í felum frá hersveitum valdstjórnarinnar. AFP

Stór hluti heilbrigðisþjónustu í Mjanmar er nú veitt utan veggja ríkisspítala landsins. Læknar og hjúkrunarfræðingar sem þar vinna eru margir andsnúnir herstjórn landsins sem rændi völdum í febrúar á síðasta ári.

Hvítstakkahreyfingin svokallaða þjónustar því nú sjúklinga sína utan ríkisrekinna sjúkrahúsa, sem starfa í nafni ólýðræðislegrar herstjórnar. Eitthvað sem alls ekki er hættulaust. Um helmingur allra þeirra 500 árása á heilbrigðisstarfsfólk á heimsvísu sem tilkynntar voru til Alþjóðaheilbrigðimálastofnunarinnar (WHO) áttu sér stað í Mjanmar.

Lyfjabúr heilbrigðisstarfsfólks skuggaheilbrigðiskerfisins í syfjulegum smábæ í Mjanmar. Þar býr …
Lyfjabúr heilbrigðisstarfsfólks skuggaheilbrigðiskerfisins í syfjulegum smábæ í Mjanmar. Þar býr fólk í nálægð við átök stjórnarhersins og uppreisnarsveita og stafar mikil ógn af. Myndin er tekin á jóladag. AFP

Vilja forða heilbrigðiskerfinu undan valdstjórninni

„Skylda okkar sem lækna er að forgangsraða í þágu sjúklinga okkar, en hvernig eigum við að geta gert það undir oki ólöglegs, ólýðræðislegs og ofstopafulls stjórnvalds?“ segir ónafngreindur mjanmarskur læknir við BBC.

Víða hafa yfir 70% heilbrigðisstarfsmanna sagt skilið við ríkisrekna vinnustaði sína og þarmeð sjúklinga sína. Það var erfið ákvörðun siðferðislega séð, ákvörðun sem hátt settir læknar í Mjanmar þó vörðu í bréfi sínu til virta læknablaðsins The Lancet.

„Okkar fyrrum valdstjórn sem sat í fimmtíu ár mistókst að byggja upp heilbrigðiskerfið og skóp frekar fátækt, ójöfnuð og ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Við getum ekki snúið aftur til slíks ástand,“ segir meðal annars í bréfinu.

Fólk með skotsár flutt í klaustur og musteri

Grace er ein tugþúsunda hvítstakka í Mjanmar. Hún gekk til liðs við hreyfinguna og missti við það húsnæði sitt. Hún hóf að mótmæla á götum úti með þúsundum annarra íbúa landsins þegar valdaránið hófst á síðasta ári og tók að sér að hjálpa særðum mótmælendum.

„Við komum í kring sjúkrabílaþjónustu ef einhver varð fyrir skoti. Aðal áhyggjuefnið var að koma þeim særðu í öruggt skjól,“ segir Grace.

„Í minniháttar tilfellum tókum við sjúklinga inn í sjúkrabílana og gerðum að sárum þeirra þar. Í tilfelli skotsára urðum við að finna örugga leið á heilsugæslustöðvar sem við reistum í musterum og klaustrum,“ bætir hún við.

Þessi viðkvæma og steinaldarlega heilbrigðisþjónusta vatt upp á sig og nú má segja að til hafi orðið eins konar skuggaheilbrigðiskerfi í Mjanmar, sem starfar að miklu leyti í skjóli þeirra útskúfuðu þingmanna, sem tóku sig saman um andóf gegn hernum sem rændi völdum af þeim.

Mótmælandi í Yangon-borg í Mjanmar leiddur burt af stjórnarhernum. Myndin …
Mótmælandi í Yangon-borg í Mjanmar leiddur burt af stjórnarhernum. Myndin var valin ein besta fréttaljósmynd ársins á AFP. AFP

Moða úr því litla sem er til

Dagsdaglega þó er þessu skuggaheilbrigðiskerfi stýrt af þúsundum sjálfboðaliða á víð og dreif um landið, sem vinna í klaustrum og musterum eða á þeim einkareknu heilsugæslum sem enn þora að starfa. Þessir sjálfboða liðar sinna nú þeirri heilbrigðisþjónustu sem ríkisreknu spítalarnir sinna ekki lengur vegna manneklu.

Dr. Zwaw Wai Soe bæklunarlæknir starfar sem heilbrigðisráðherra útlægu ríkistjórnarinnar sem velt var úr sessi. Áður en valdaránið hófst leiddi hann baráttu Mjanmar við heimsfaraldur kórónuveiru. Hann á yfir höfði sér dóm fyrir landráð eftir að hafa hafnað boði herstjórnarinnar um stöðu sem heilbrigðisráðherra þeirra.

„Við höfum ekki nægt fjármagn,“ segir hann við BBC. „Við höfum þó stuðning landsmanna og vina erlendis. Það er ekki nóg en við erum að gera allt sem við getum til þess að veita heilbrigðisþjónustu í þessum erfiðu aðstæðum.“

mbl.is