100 manna veisla í miðjum faraldri

Boris Johnson (til hægri) ásamt ritara sínum Martin Reynolds.
Boris Johnson (til hægri) ásamt ritara sínum Martin Reynolds. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og háttsettir embættismenn í Downingstræti 10 hafa verið gagnrýndir á nýjan leik eftir að tölvupóstur var birtur þar sem starfsfólki var boðið að koma með sína eigin drykki í veislu á meðan harðar sóttvarnaaðgerðir voru í gildi í landinu.

Martin Reynolds, starfsmaður forsætisráðuneytisins, sendi tölvupóstinn til yfir eitt hundrað starfsmanna Downingstrætis 10, samkvæmt tölvupóstinum sem breskir fjölmiðlar hafa undir höndum.

Í honum stóð: „Eftir tímabil þar sem ótrúlega mikið hefur verið að gera væri gaman að nýta þetta yndislega veður og fá okkur nokkra drykki með réttu bili á milli fólks í garðinum í Nr. 10 í kvöld. Endilega verið með okkur frá klukkan 18 og komið með ykkar eigið áfengi!“

Tölvupósturinn var sendur 20. maí í fyrra þegar bannað var að hópast saman utandyra.

Búist er við því að Susan Gray, sem var fengin til að rannsaka þó nokkrar veislur sem eru sagðar hafa verið haldnar í Downingstræti á meðan harðar sóttvarnaaðgerðir voru í gildi, muni rannsaka málið.

Ríkisstjórnin hefur áður neitað því að nokkrar reglur hafi verið brotnar í Downingstræti í faraldrinum.

mbl.is