Sex skref til að sigra Pútín

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

„Aldrei á ævinni hef ég séð alþjóðlega krísu þar sem skilin milli rétts og rangs hafa verið jafn greinileg,“ skrifar Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í New York Times.

Johnson skrifar að árásin á Saporisjía-kjarnorkuverið minni okkur á hversu mikið er í húfi fyrir alla. „Meiri en milljón manns hafa flúið ofbeldi, í átt að óráðinni framtíð.“

Þá segir hann Joe Biden forseta Bandaríkjanna hafa sýnt frábæra forystu. Evrópusambandið hafi stillt sig á bak við strangar refsiaðgerðir og tugir Evrópuþjóða hafi sent varnarbúnað til Úkraínu.

Heiðarlega svarið er nei

„En höfum við gert nóg fyrir Úkraínu? Heiðarlega svarið er nei,“ skrifar Johnson.

„Þetta eru ekki NATO-átök og munu ekki verða það. Enginn bandamaður hefur sent bardagasveitir til Úkraínu. Við höfum engan fjandskap í garð rússnesku þjóðarinnar og við höfum enga löngun til að mótmæla stórri þjóð og heimsveldi. Við örvæntum um þá ákvörðun að senda unga, saklausa Rússa í tilgangslaust stríð,“ skrifar Johnson og bætir við að í sannleika sagt hafi Úkraína ekki átt möguleika á að vera hluti af Atlantshafsbandalaginu í náinni framtíð.

Johnson segir Breta þekkja til miskunnarleysis Pútíns, þó það sé ekki hægt að bera það saman við innrásina í Úkraínu.

Fyrir fjórum árum máttum við þola afleiðingar þess að rússneskir stjórnarmenn beittu efnavopnum gegn fólki í Salisbury á Englandi - og bandamenn okkar fylktu sér við hlið okkar. Í endurskoðun okkar á sviði varnar- og utanríkismála, sem gefin var út fyrir ári síðan, vöruðum við við því að Rússland væri áfram mesta öryggisógnin.

Ánægjulegt hversu margir hafa sent varnarbúnað

Johnson segist ánægður að sjá hversu margar þjóðir hafa fylgt fordæmi Bretlands og örfárra annarra Evrópuþjóða, og senda nú varnarbúnað til Úkraínu.  

„Það er kærkomin þróun, en hún mun ekki duga ein og sér til að bjarga Úkraínu eða halda frelsisloganum á lofti. Rússar hafa yfirgnæfandi vald og virðist ekkert virða stríðslögmálin. Við þurfum að búa okkur undir enn myrkari daga framundan,“ skrifar Johnson.

Sex punkta áætlun

Johnson skrifar að frá og með deginum í dag verði að hrinda af stað sex punkta áætlun fyrir Úkraínu.

  • Í fyrsta lagi verði að koma á laggirnar alþjóðlegu mannúðarbandalagi.
  • Í öðru lagi verði að gera meira til að hjálpa Úkraínu að verja sig.
  • Í þriðja lagi verði að setja enn meiri efnahagslegan þrýsting á stjórn Pútíns og ganga lengra með refsiaðgerðir. Til dæmis að loka á aðgang allra rússneskra banka að SWIFT.
  • Í fjórða lagi verði að koma í veg fyrir að það sem Rússar eru að gera í Úkraínu verði talið eðlilegt.
  • Í fimmta lagi ættum við alltaf að vera opin fyrir díplómasíu.
  • Í sjötta lagi verði að styðja öryggi í Evrópu og úti á Atlantshafi. Þetta felur ekki aðeins í sér að efla austurhlið Atlantshafsbandalagsins heldur verður einnig að styðja við Evrópulönd sem eru utan bandalagsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert