Fyrirtæki Jones gjaldþrota

Banda­ríski út­varps­maður­inn Alex Jo­nes.
Banda­ríski út­varps­maður­inn Alex Jo­nes. AFP

Fyrirtæki í eigu banda­ríska út­varps­mannsins Alex Jo­nes, þar á meðal hægrisinnaði fjölmiðavefurinn InfoWars, eru gjaldþrota.

Þetta kemur í kjölfar dómsmála á hendur Jones en hann sagði skotárásina í San­dy Hook skól­an­um í Conn­ecticut árið 2012, vera til­bún­ing.

BBC greinir frá því að með því að lýsa yfir gjaldþroti í Bandaríkjunum geta fyrirtæki Jones starfað áfram að ákveðnu leyti og samið um skuldir þess.

Þá eru önnur málaferli sett á frest meðan unnið er upp úr gjaldþrotinu. 

Ítrekað stefnt af foreldrum fórnarlambanna

Í skjölum InfoWars kemur fram að eigur fyrirtækisins séu um 0 til 50 þúsund dollarar en skuldir þess á bilinu ein milljón til tíu milljónir dollara.

Jo­nes hef­ur lengi haldið því fram í út­varpsþætti sín­um og á vefsíðunni In­fow­ars að árás­in á San­dy Hook hafi verið „al­gjör föls­un“ og „gríðar­stórt gabb“.

Hon­um hef­ur ít­rekað verið stefnt af for­eldr­um fórna­lamba árás­ar­inn­ar vegna um­mæla sinna.

Síðar í þessum mánuði átti kviðdómur að ákveða hversu miklar skaðabætur Jones ætti að greiða fjölskyldum fórnarlambanna. 

Hann hafði áður boðist til þess að greiða 120 þúsund dollara, eða um 15,5 milljónir íslenskra króna, til hvers og eins þeirra þrettán einstaklinga sem eiga í málaferlum við hann. 

Fjölskyldurnar höfnuðu því boði. 

Síðan dómsmálin hafa átt sér stað hefur Jones viðurkennt að skotárásin í Sandy Hook skólanum átti sér stað en tutt­ugu börn og sex full­orðnir létu lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert