Gert að greiða foreldrum fórnarlamba bætur

Alex Jones
Alex Jones AFP

Bandaríski útvarpsmaðurinn Alex Jones tapaði á fimmtudag dómsmáli vegna ummæla hans um skotárásir í skólum. Tuttugu börn og sex fullorðnir létu lífið í skotárás í Sandy Hook skólanum í Connecticut árið 2012, en Jones sagði árásina vera tilbúning.

Jones mun nú þurfa að greiða málskostnað foreldra tveggja sex ára drengja sem létust í árásinni. Þá mun hann þurfa að greiða foreldrum drengjanna bótafjárhæð sem ákveðin verður síðar. 

Jones hefur lengi haldið því fram í útvarpsþætti sínum og á öfgahægri vegsíðunni Infowars að árásin á Sandy Hook hafi verið „algjör fölsun“ og „gríðarstórt gabb“. Honum hefur ítrekað verið stefnt af foreldrum fórnalamba árásarinnar vegna ummæla sinna.

Fram kemur í úrskurði dómarans Maya Guerra Gamble, sem gefinn var út á þriðjudag í Texas-ríki, að Jones hafði ekki lagt fram gögn ummælum sínum um árásina til stuðnings. Var þ.a.l. ekki farið í efnislegt mat á ummælum hans. 

Samfélagsmiðlarnir Facebook, Twitter og Youtube hafa allir lokað fyrir reikninga Jones vegna hatursorðræðu hans. 

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert