Banna umferð rússneskra skipa

Rússneskt skip í landhelgi Danmörku í lok mars.
Rússneskt skip í landhelgi Danmörku í lok mars. AFP

Yfirvöld í Noregi ætla að fylgja fordæmi Evrópusambandsins (ESB) og loka höfnum ríkisins fyrir rússneskum skipum. Rússneskum togurum verður þó áfram heimilt að sigla inn í hafnir Noregs. 

Noregur er ekki hluti af Evrópusambandinu en hefur fylgt fordæmi ESB í nánast öllum refsiaðgerðum á hendur Rússlandi. 

Nýjustu refsiaðgerðir ESB voru settar á 7. apríl, og fylgir nú Noregur þeim eftir að mestu leyti.

Skip sem bera rússneska fánann verða bönnuð í norskum höfnum frá 7. maí.

Togarar og aðrir fiskibátar, sem margir hverjir landa á meginlandi Noregs eða á Svalbarða, verða þó undanskyldir banninu. 

„Refsiaðgerðirnar eru helsti þrýstingurinn sem við höfum gegn rússnesku stjórninni. Það er nauðsynlegt að við stöndum með ESB og öðrum ríkjum til þess að veikja getu Rússlands til þess að fjármagna stríðið í Úkraínu,“ sagði Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert