Einn lést og annar alvarlega særður eftir árás bjarndýrs

Þessir skógarbirnir eru mun minni en sá sem um ræðir.
Þessir skógarbirnir eru mun minni en sá sem um ræðir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bandarískur fallhlífarsérsveitarmaður lést og annar særðist alvarlega í árás bjarndýrs nærri herstöð þeirra í Alaska í Bandaríkjunum. Mennirnir voru við æfingar að næturlagi þegar dýrið réðst á þá. Fréttamiðlar vestanhafs segja leit standa yfir að birninum, finnist hann verður skepnan að líkindum aflífuð.

Hinn látni var þrítugur, hafði þjónað í hernum frá árinu 2015 og meðal annars gegnt herþjónustu á vígvöllum Afganistans. Ekkert hafði í gær verið gefið upp um félaga hans.

Mennirnir voru báðir staðsettir á herstöðinni Elmendorf-Richardson, sem mynduð er úr tveimur herstöðvum sem sameinaðar voru árið 2010, nærri Anchorage í Alaska. Er talið að þeir hafi óafvitandi gengið inn í bæli bjarndýrs sem þá brást illa við heimsókninni. Líklegast er dýrið kvenkyns skógarbjörn því þess háttar dýr sást í nálægum öryggismyndavélum með húna í eftirdragi. Ekki er vitað hvort mennirnir hafi verið með einhvern varnarbúnað á sér, s.s. bjarnarúða. khj@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert