Kallaði til lögreglu vegna verðs á kaffibolla

Kaffibollinn kostaði 280 íslenskar krónur, og þótti viðkomandi það nú …
Kaffibollinn kostaði 280 íslenskar krónur, og þótti viðkomandi það nú heldur vel í lagt. AFP

Kaffihúsagestur í borginni Flórens á Ítalíu kallaði til lögreglu, þegar honum varð ljóst að skot af koffínlausum espresso, sem hann hafði pantað sér, kostaði tvær evrur. 

Tvær evrur samsvara tæplega 280 íslenskum krónum, til samanburðar. 

Kaffihúsið, sem heitir Ditta Artigianale, fékk í kjölfarið eitt þúsund evra sekt. Var það vegna þess að verðið var ekki sjáanlegt á matseðlinum.

Metnaður að baki hverjum bolla

Meðalverðið á espresso á Ítalíu er ein evra, að því sem kemur fram í frétt The Guardian. Kaffið á Ditta Artigianale þykir afbragðs kaffi og hefur unnið til nokkurra verðlauna.

Francesco Sanapo, eigandi staðarins, greindi frá sektinni á samfélagsmiðlum. Hann benti á að kaffibaunirnar komi frá lítilli ekru í Mexíkó og að kaffibarþjónarnir leggi mikinn metnað í að útbúa viðskiptavinum hágæða kaffibolla.

Úrelt lagastoð

Þá benti hann á að verðið hafi verið sýnilegt á rafræna matseðlinum.

„Þeir sektuðu mig vegna þess að einhver viðskiptavinur var hneykslaður á því að þurfa að greiða tvær evrur fyrir kaffibolla, trúið þið því?“ spyr Sanapo í myndbandi sem hann birti á samfélagsmiðlum.

Þá gagnrýnir hann lagastoðina sem sektin byggði á, en hann telur hana úrelta og að kominn sé tími til að fella hana úr gildi. Sú regla gerir kröfu um að verð séu ávallt sýnileg viðskiptavinum.

Sanapo segir að meirihluti veitingastaða á Ítalíu fari ekki eftir henni og því sé taktlaust að beita henni til þess að friðþægja hneykslaðan viðskiptavin. 

mbl.is