Krefjast fangelsisvistar til fimm ára

Teikning innan úr dómsal. Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini með heyrnartól …
Teikning innan úr dómsal. Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini með heyrnartól á höfði. AFP

Saksóknarar í Stokkhólmi kröfðust í dag að minnsta kosti fimm ára fangelsisrefsingar í máli ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini, sem græddi plast­barka í sjúk­linga á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokk­hólmi.

Macchi­arini er ákærður fyr­ir gróft of­beldi gegn þrem­ur sjúk­ling­um sem hann græddi plast­barka í á ár­un­um 2011 og 2012.

Lét­ust all­ir sjúk­ling­arn­ir, en að minnsta kosti einn þeirra var ekki tal­inn í lífs­hættu áður en aðgerðin var fram­kvæmd. Þessi þrjú til­felli áttu sér stað í Svíþjóð en utan Svíþjóðar fram­kvæmdi Macchi­ar­ini fimm sam­bæri­leg­ar aðgerðir og eru þeir sjúk­ling­ar einnig látn­ir.

Macchiarini árið 2011.
Macchiarini árið 2011. AFP

Gengið gegn vísindum

Ákæruvaldið hefur í réttarhöldunum fullyrt að skurðaðgerðir Macchiarini hafi gengið gegn vísindum og fenginni reynslu. Þá hafi læknirinn hagað sér af kæruleysislegum ásetningi, þar sem hann hélt áfram að framkvæma aðgerðirnar þrátt fyrir þá kvilla sem fylgt höfðu fyrri aðgerðum fyrir þá sjúklinga.

Búist er við að dómur verði kveðinn upp í málinu 16. júní.

mbl.is