Gestir í Downingstræti 10 sátu í fangi hvers annars

Samkvæmt heimildamönnum sat fólk í fangi hvers annars í veislum …
Samkvæmt heimildamönnum sat fólk í fangi hvers annars í veislum í Downingstræti 10. AFP/ Ben Stansall

Starfsfólk í Downingstræti 10 stóð þétt saman og sat jafnvel í fangi hvers annars í veislum sem haldnar voru þegar strangar samkomutakmarkanir voru í gildi í Bretlandi vegna kórónuveirufaraldursins.

Umbúðir utan af mat og tómar flöskur lágu á víð og dreif eftir veislurnar þegar starfsfólk kom til vinnu daginn eftir. Þetta segja heimildamenn BBC sem sóttu veislur í Downingstræti. BBC greinir frá.

Fjöldi gesta í þessum veislum var langt umfram það sem leyfilegt var á þessum tíma, en þá mátti fólk ekki koma saman nema það tilheyrði sama heimili.

Veislurnar stóðu í einhverjum tilfellum langt fram á nótt, jafnvel svo lengi að fólk dvaldi næturlangt í Downingstræti 10.

Heimildamenn BBC segja að hæðst hafi verið að starfsfólki sem reyndi að koma í veg fyrir veislurnar.

Hefð fyrir „Wine-Time Friday“

Í gær láku í fjölmiðla myndir af Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sem sýndu hann lyfta glasi í kveðjuhófi vegna starfsloka Lee Cain, þáverandi verkefnastjóra samskipta. Fyrir framan hann sást í tómar flöskur og veislumat. Kveðjuhófið fór fram 13. nóvember 2020 þegar samkomutakmarkanir voru í fullu gildi, en samkvæmt heimildamönnunum voru að minnsta kosti 30 gestir í veislunni.

Heimildamennirnir segjast hafa upplifað það þannig að reglur væru brotnar með leyfi og vitund Johnson. Veislurnar hafi verið haldnar reglulega og að vikulega hafi verið haldnir „WTF“ viðburðir, eða „Wine-Time Friday“. Þá hafi starfsfólk komið saman og fengið sér drykki eftir vinnuvikuna. Drykkjan hafi þó ekki verið bundin við föstudaga.

Sama kvöld og jarðarför Filippusar prins, eiginmanns Elísabetar Englandsdrottningar, fór fram var haldi veisla í Downingstræti þar sem fólk dansaði og skemmti sér. Samkoman mun hafa verið það hávær að öryggisverðir þurftu að hafa afskipti af fólki og biðja það yfirgefa svæðið. Þá hafi fólk fært sig út í garð þar sem veislan hélt áfram langt framundir morgun.

Talsmaður forsætisráðherrans hefur sagt að hann taki mjög alvarlega afhjúpanir af veisluhöldum í Downingstræti, en hann hefur líka sagt að hann hafi ekki vitað að hann væri að brjóta reglur með því að taka þátt í veislunum. Johnson hefur sagt að gerðar verði breytingar á stjórnunarháttum í Downingstræti og á skrifstofu ríkisstjórnarinnar vegna málsins.

Lögregla lauk rannsókn sinni á brotum á samkomutakmörkunum í síðustu viku og höfðu þá verið gefnar út 126 kærur vegna brota. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert