Flogið til Majorka fyrir þungunarrof

Hér má sjá Prudente og Weeldreyer á sjúkrahúsinu í Möltu …
Hér má sjá Prudente og Weeldreyer á sjúkrahúsinu í Möltu þar sem Prudente hefur misst mikið blóð. AFP

Bandarískri konu, sem neitað var um þungunarrof á Möltu, hefur verið heimilað að fljúga til Spánar þar sem hún mun undirgangast þungunarrof. Þetta hefur Guardian eftir lögmanni konunnar. 

Konan heitir Andrea Prudente og er 38 ára gömul. Hún var komin sextán vikur á leið og stödd á Möltu í fríi með maka sínum, Jay Weeldreyer, þegar hún fór að finna fyrir einkennum fósturmissis. Fyrir viku var hún lögð inn á spítala á Möltu sökum mikilla blæðinga. 

Parið óskaði eftir því að framkvæmt yrði þungunarrof, enda væri lífi Prudente ógnað. Á Möltu er aftur á móti í gildi undantekningarlaust bann við fóstureyðingum. 

Ekki í ástandi til að ferðast

Á sama tíma meinuðu læknarnir henni um ferðalög, þar sem hún væri ekki í ástandi til þess að ferðast. Lögmaðurinn upplýsti Guardian um það að gerðar hafi verið ráðstafanir í gegnum ferðatryggingar parsins, sem gera þeim kleift að ferðast til Majorka á Spáni.

„Tryggingafélagið hefur gert ráðstafanir svo þeim verði flogið frá Möltu til Majorka. Andrea Prudente mun útskrifa sig sjálf á Möltu, þar sem ferðalagið fer gegn læknisráði.“

Parið flaug með sjúkraflugi til Majorka í gær, þar sem framkvæmt verður þungunarrof. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert