Kókaínkóngur Mílanó framseldur

Frá fyrri handtöku Rocco Morabito í Úrúgvæ. Morabito komst þá …
Frá fyrri handtöku Rocco Morabito í Úrúgvæ. Morabito komst þá undan fangelsisvist og framsali til Ítalíu. AFP/Innanríkisráðuneyti Úrúgvæ

Einn eftirsóttasti maður Ítalíu af lögregluyfirvöldum þar í landi, Rocco Morabito, er kominn til Rómar eftir að hafa verið framseldur frá Brasilíu, þar sem hann var í felum frá yfirvöldum. 

BBC greinir frá.

Morabito, sem er þekktur sem „kókaínkóngur Mílanó“, var handtekinn í maí á síðasta ári í sameiginlegum aðgerðum brasilískra og ítalskra lögreglusveita. 

Hinn 55 ára kókaínkonungur hefur verið dæmdur til þrjátíu ára fangelsisvistar fyrir meiriháttar fíkniefnasmygl. 

Morabito, sem var höfuðpaur í mafíu í Ítalíu, hefur undanfarna áratugi verið á flótta undan lögregluyfirvöldum, með hjálp falskra auðkenna, í Suður-Ameríku.

Kom upp helstu smyglleiðum

Lögreglan hafi loks hendur í hári hans á síðasta ári í hafnarborginni João Pessoa í norðausturhluta Brasilíu. Var hann handtekinn ásamt félaga sínum í Ndrangheta-mafíunni, Vincenzo Pasquino. 

Pasquino hefur síðan þá verið dæmdur til sautján ára fangelsisvistar fyrir fíkniefnasmygl. 

Koma Morabito bindur endi á áratugalanga leit að honum. Morabito fæddist inn í fjölskyldu með mafíutengsl. Ungur hafði hann tögl og hagldir á hinni þrælskipulögðu Ndrangheta-mafíunnar sem stjórnar að miklu leyti umferð kókaíns til og frá Ítalíu og jafnvel víðar.

Morabito klifraði meðal annars metorðastigann innan mafíunnar með því að koma upp helstu smyglleiðum frá Suður-Ameríku og inn í ítalskar borgir.

mbl.is