Annar fjármálaráðherra í klandri vegna fjármála

Nadhim Zahawi, fjármálaráðherra Bretlands.
Nadhim Zahawi, fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Nadhim Zahawi, fjármálaráðherra Bretlands, er nú undir þrýstingi að útskýra uppruna 26 milljón punda láns sem fjölskyldufyrirtæki hans fékk árið 2018 á sama tíma og skattamál hans eru til rannsóknar. 

Þess má geta að fyrrverandi fjármálaráðherra, Rishi Sunak, sem sagði af sér 5. júlí og átti þátt í falli Boris Johnson forsætisráðherra, er einnig gagnrýndur fyrir á skort á gagn­sæi í skatta­mál­um og fjár­mál­um.

Sunak er nú efstur í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins. Zahawi bauð sig fram en datt út í fyrstu umferð á miðvikudaginn. 

Aflandsfélag seldi hlutabréf

The Guardian greinir frá því að lánin sem Zahawi tók auðvelduðu honum og eiginkonu hans að fjárfesta í fasteignum um allt Bretland, meðal annars í verslunarhúsnæði í Lundúnum, Birmingham og Brighton. 

Lánin voru tekin sama ár og aflandsfélagið Balshore Investments, sem er tengt Zahawi, seldi hlutabréf í skoðanakönnunarfyrirtækinu YouGov, sem að fjármálaráðherrann stofnaði.

26 milljónir punda, eða um fjórir milljarðar króna, voru síðan millifærðar á óþekktan aðila. 

Samkvæmt heimildamanni sem stendur Zahawi nærri, er þó engin tenging á milli peninganna sem voru millifærðir úr aflandsfélaginu og lánanna sem hjónin tóku. 

„Nadhim og eiginkona hans hafa aldrei notið góðs af neinum aflandsfélögum,“ er haft eftir heimildamanninum.

Skulda 55 milljónir punda

Fasteignafyrirtæki Zahawi hjónanna er nú stjórnað af eiginkonu ráðherrans og er áætlað að eignir þess séu að virði um 58 milljónir punda. Skuldir fyrirtækisins eru um 55 milljónir punda. 

Kallað hefur verið eftir því að Zahawi beri kennsl á lánveitendurna eða þá sem hjálpuðu honum að fjármagna fasteignafyrirtækið. 

Zahawi segist ávallt hafa greitt rétta skatta og sé tilbúin til þess að svara öllum spurningum eftir að greint var frá því í síðustu viku að skattayfirvöld væru að rannsaka mál fjármálaráðherrans. 

Fékk ekki hlutabréf í eigin fyrirtæki

Zahawi er 55 ára gamall og hóf feril sinn í viðskiptalífinu en hann stofnaði skoðanakannana- og markaðsrannsóknafyrirtækið YouGov árið 2000. Sérfræðingar í skattamálum eru hins vegar undrandi yfir að Zahawi hafi ekki átt hlutabréf í fyrirtækinu frá upphafi, sem einn af stofnendum þess. 

Meðstofnandi hans Stephan Shakespeare fékk 351,590 hlutabréf árið sem fyrirtækið var stofnað. 

Í staðinn fóru hlutabréf til aflandsfélagsins, Balshore Investments, sem hefur höfuðstöðvar í Gíbraltar og er stjórnað af foreldrum Zahawi. Fjármálaráðherrann hefur mikið leitað til föður síns til að fá ráð um ákvarðanir í viðskiptum.

Zahawi gegndi stöðu forstjóra YouGov til ársins 2010 er hann var kjörinn þingmaður Íhaldsflokksins. 

„Fjölskyldusjóður Nadhim Zahawi

Hlutabréf aflandsfélagsins í YouGov hafa hækkað mikið í verði en árið 2002 var virði þeirra um 36 þúsund punda en einungis átta árum síðar var virði þeirra orðið um sjö milljónir punda. Árið 2017 var virði þeirra síðan orðið 26,5 milljónir punda og hefur félagið fengið meira en 700 þúsund pund í arð á árunum 2012 til 2017. 

YouGov hefur lýst Balshore Investment sem „fjölskyldusjóði Nadhim Zahawi“. Fjármálaráðherrann hefur hins vegar haldið því fram að „hann hefur ekki, og hafi aldrei haft hagsmuni af Balshore Investments og aldrei notið góðs af félaginu.“

Talskona Zahawi sagði að allar fréttir um að ráðherrann hafi svikið undan skatti með aflandsfélögum séu rangar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert