Leituðu að trúnaðargögnum um kjarnavopn

Fyrrverandi bandaríkjaforseti vildi sjálfur að leitarheimildin yrði gerð opinber.
Fyrrverandi bandaríkjaforseti vildi sjálfur að leitarheimildin yrði gerð opinber. AFP

Trúnaðargögn um kjarnavopn voru á meðal þess sem alríkislögreglan leitaði í húsleit á setri Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta fyrr í vikunni. Þetta herma heimildir dagblaðsins Washington Post.

Heimildarmenn blaðsins eru sagðir ekki geta greint frá því hvort fulltrúar hafi fundið umræddar upplýsingar, né hafi þeir getað fullyrt hvort upplýsingarnar varði vopnabúr Bandaríkjanna eða annars lands.

Merrick Garland dómsmálaráðherra sagði í opinberri yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins í gær að hann hefði gefið persónulega heimild til leitarinnar, en sagði að hann gæti ekki rætt rannsóknina frekar. 

Örfáir embættismenn fái aðgang

Í beiðni ráðuneytisins segir að það sé hagsmunamál að almenningur fái að vita hvers vegna húsleitin var framkvæmd.

Trump sjálfur hafði einnig kallað eftir því á samfélagsmiðlum að leitarheimildin yrði gerð opinber. 

Sérfræðingar tjá blaðinu að upplýsingar um kjarnorkuvopn séu viðkvæmt mál og í flestum tilvikum fái örfáair embættismenn aðgang að þeim. 

Þá geti önnur ríki litið á opinberun upplýsinga um kjarnorkuvopn sem ákveðna ógn og á hinn bóginn geti óvinaríki notað þær upplýsingar gegn þeim. 

Rannsókn á óviðeigandi meðferð skjala hófst fyrir nokkrum mánuðum, þegar Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna fór fram á skil á efni sem hafði verið tekið frá Hvíta Húsinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert