Rushdie stunginn á sviði í New York

Salman Rushdie.
Salman Rushdie.

Ráðist var á bresk-indverska rithöfundinn Salman Rushdie er hann var að undirbúa fyrirlestur í New York-borg í Bandaríkjunum í dag. 

Vitni urðu að því þegar maður ruddist upp á svið í Chautauqua-stofnuninni þar sem fyrirlesturinn átti að fara fram og réðst á Rushdie. Rushdie lá í gólfinu er árásarmaðurinn var tekinn höndum.

Stunginn í hálsinn

Lögreglan í New York hefur staðfest að Rushdie hafi verið stunginn í hálsinn. Fram kemur í tilkynningu lögreglu að Rushdie hafi verið fluttur með þyrlu á sjúkrahús en ekki er vitað um líðan hans að svo stöddu. Þá segir að árásarmaðurinn sé í haldi lögreglu.

Bönnuð víða um heim

Bók Rushdie, Söngvar Satans, olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 1988 og fékk Rushdie fjölmargar líflátshótanir vegna ásakana um guðlast en bókin er gagnrýnin á múhameðstrú og er bönnuð víða um heim. 

Ayatollah Khomeini, þáverandi erkiklerk­ur Írans, fyr­ir­skipaði að Rus­hdie skyldi líf­lát­inn árið 1989. Árið 1998 lýsti rík­is­stjórn Íran því þó yfir að hún ætlaði ekki að fram­fylgja dómn­um.

mbl.is

Bloggað um fréttina