Kanada afléttir öllum takmörkunum á landamærum

Grímuskylda verður einnig felld niður í flugvélum og lestum.
Grímuskylda verður einnig felld niður í flugvélum og lestum. AFP

Yfirvöld í Kanada hafa greint frá því að allar takmarkanir á landamærum vegna Covid-19 verði felldar niður 1. október næstkomandi, þar á meðal bólusetningarskylda fyrir ferðamenn, að því er segir í frétt BBC.

Frá og með 1. október þurfa þau sem ferðast til Kanada því ekki lengur sýna fram á að hafa verið bólusett gegn Covid-19, ekki að gangast undir nein próf, sæta sóttkví eða einangrun. Grímuskyldu í flugfélögum og lestum verður einnig aflétt. Þá verður notkun smáforritsins ArriveCan valkvæð, en þar er hægt að hlaða niður heilsufarsupplýsingum.

Betur í stakk búin en fyrr í faraldrinum 

Heilbrigðisráðherra landsins, Jean-Yves Duclos, sagði í yfirlýsingu í dag að Kanada væri í mun betri stöðu núna en fyrr í faraldrinum hvað varðar aðgengi að bóluefni og meðhöndlun Covid-19.

Þá er bólusetningarhlutfall kanadísku þjóðarinnar hátt, en 82 prósent hafa fengið tvær bólusetningar. Dauðsföllum af völdum Covid-19 hefur einnig fækkað verulega, en um 32 einstaklingar deyja nú að meðaltali daglega úr sjúkdómnum þar í landi.

Tilfellum af Covid-19 hefur þó fjölgað síðustu vikurnar og margt bendir til þess að ný bylgja muni ganga yfir þegar líður á haustið. Í langflestum tilfellum er þó um innanlandssmit að ræða.

mbl.is