ESB samþykkir nýjar refsiaðgerðir

Úkraínskir hermenn í Líman í Dónetsk-héraði í gær.
Úkraínskir hermenn í Líman í Dónetsk-héraði í gær. AFP/Anatolí Stepanov

Evrópusambandið hefur samþykkt nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum eftir að stjórnvöld í landinu innlimuðu fjögur héruð í Úkraínu.

Þessi nýi pakki, sem er sá áttundi síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar, fer í gegnum lokasamþykkt og ef enginn hreyfir mótmælum tekur hann gildi á morgun.

Ekki hefur verið gefið upp í hverju refsiaðgerðirnar felast, en á meðal þess sem rætt var um á fundum í vikunni var að setja verðþak á rússneska olíu sem er flutt víðsvegar um heiminn.

Einnig var rætt um að lengja listann yfir fólk á svörtum lista hvað varðar ferðabann innan ríkja ESB og frystingu eigna vegna stuðnings við innlimun héraðanna fjögurra.

mbl.is