Ofbeldisfull mótmæli við iPhone-verkmiðju

Starfsmenn fyrir utan verksmiðju Foxconn í borginni Shenzhen í héraðinu …
Starfsmenn fyrir utan verksmiðju Foxconn í borginni Shenzhen í héraðinu Guangdong árið 2010. AFP

Ofbeldisfull mótmæli brutust út við verksmiðju Foxconn í miðhluta Kína þar sem iPhone-símar eru framleiddir þegar verkamenn lentu í átökum við öryggisverði vegna takmarkana í verksmiðjunni af völdum kórónuveirunnar.

Í myndskeiðum á samfélagsmiðlum, sem AFP-fréttastofan hefur sannreynt, má sjá mörg hundruð verkamenn á göngu eftir götu og einhverja þeirra lenda í átökum við lögregluna og fleiri aðila.

Í einu myndskeiði sást í blóðugan mann á meðan einhver annar sagði: „Þeir eru að lemja fólk, þeir eru að lemja fólk. Hafa þeir enga samvisku?“

Í öðru myndskeiði sáust sýnatökuklefar fyrir Covid-19 sem höfðu verið skemmdir og farartæki sem hafði verið velt á hliðina.

Hörð afstaða kínverskra stjórnvalda gegn kórónuveirunni hefur valdið þreytu og óánægju á meðal margra Kínverja. Einhverjir þeirra hafa verið lokaðir inni í margar vikur í verksmiðjum og háskólum, eða mega ekki ferðast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert