Leitarstörf í nótt ekki skilað árangri

Aurskriðan olli miklu tjóni.
Aurskriðan olli miklu tjóni. AFP/Eliano Imperato

Teymi björgunarfólks á ítölsku eyjunni Ischia hefur verið að störfum í alla nótt í von um að finna þá sem enn er saknað eftir að aurskriða féll á bæinn Casamicciola snemma í gærmorgun.

Að minnsta kosti einn hefur látið lífið vegna skriðunnar og 13 hafa slasast, þar af einn lífshættulega. Skriðan olli miklu tjóni en hún gleypti að minnsta kosti eitt hús og ruddi nokkrum bílum út í sjó.

Lík Elenoru Sirabella fannst í gær en svo virðist sem leitarstörfin í nótt hafi ekki borið mikinn árangur en ellefu er enn saknað.

Veðrið hamlað björgunaraðgerðir

Ítalski miðillinn ANSA segir sterkir vindar hafa gert björgunarfólki erfitt fyrir í nótt en mikil úrkoma í gær hamlaði einnig leitarstörfin. Veðrið gerði það einnig að verkum að erfiðlega hefur gengið að ferja liðsauka frá meginlandinu yfir á eyjuna. 

„Við óttumst að fórnarlömbin gætu verið fleiri en hingað til er staðfestur fjöldi látinna enn einn,“ segir talsmaður slökkviliðsins í Casamlicciola.

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, vottaði samúð sína á Twitter í gær þar sem hún greindi jafnframt frá því að hún hefði boðað til neyðarfundar í ríkisstjórninni vegna hamfaranna.

Matteo Piantedosi, innviðaráðherra Ítalíu, segir ástandið grafalvarlegt en yfirvöld óttist að það séu fleiri fastir undir aur.

Hér má sjá bíla sem lentu út í sjó vegna …
Hér má sjá bíla sem lentu út í sjó vegna skriðunnar. AFP/ANSA
mbl.is