Hringdi í föður sinn eftir hjálp áður en hún dó

Fjórir eru látnir og níu er enn saknað eftir aurskriðu …
Fjórir eru látnir og níu er enn saknað eftir aurskriðu á Ischia. AFP/Eliano Imperato

Kona á fertugsaldri hringdi í föður sinn eftir hjálp þegar jörð fór að hreyfast á hæð fyrir ofan hana í upphafi aurskriðunnar á ítölsku eyjunni Ischia í gær.

Náði hann ekki til dóttur sinnar vegna mikils straums af leðju sem umlykti húsið sem konan var í. Þegar björgunaraðilar komust loks að konunni var hún þegar látin.

Eiginmaður konunnar er einn þeirra níu sem enn er saknað en yfirvöld hafa tilkynnt að fimm hafi látist.

BBC segir frá. 

Eldri kona fannst látin í dag og einnig lík ungrar stúlku, fimm eða sex ára. Foreldrar, bróðir og frændi stúlkunnar eru meðal þeirra sem enn er saknað.

Björgunaraðilar tilkynntu síðdegis í dag að fjórða líkið hefði fundist í dag. Kennsl hafa ekki enn verið borin á þann einstakling.

Ólögleg hús hluti vandans

Um helmingur húsanna á eyjunni voru byggð ólöglega og þola því illa ágang skriðufalla og jarðskjálfta. Er það talin vera helsta ástæðan fyrir eyðileggingunni á eyjunni. 

Nello Musumeci, almannavarnaráðherra Ítalíu, segir að þörf sé á „landsáætlun til að aðlagast loftlagsbreytingum“ til að tryggja það að byggingar og innviðir þoli sífellt tíðari náttúruvár eins og mikla rigningu á stuttum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert