Biden vill lög á járnbrautarverkfall

Joe Biden hvetur þingið til að afstýra verkfalli járnbrautarstarfsmanna með …
Joe Biden hvetur þingið til að afstýra verkfalli járnbrautarstarfsmanna með lögum. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvetur þingið til að setja lög sem banna yfirvofandi verkfall járnbrautarstarfsmanna sem skollið gæti á 9. desember og bendir á þær efnahagslegu þrengingar sem yrðu fylgifiskurinn en þar stendur tylft verkalýðsfélaga með 115.000 starfsmenn að baki.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar, segir deildina ganga til atkvæða um málið í dag en í annarri atkvæðagreiðslu verði atkvæði greidd um allt að sjö daga launað veikindaleyfi starfsmanna járnbrautanna.

„Mér er illa við að vega að verkfallsréttinum, en miðað við það sem hér er í húfi verðum við að forðast verkfall,“ segir deildarforsetinn, en Biden forseti varaði á mánudaginn við afeiðingum járnbrautarverkfalls sem gæti kostað allt að 765.000 manns vinnuna fyrstu tvær vikurnar sem það stæði.

Ekki vinnustaður til að vera veikur á

„Ég held að þingið verði að stöðva þetta. Það er ekki auðveld beiðni að leggja fram en ég held að við neyðumst til þess að gera það, efnahagurinn er í húfi,“ sagði forsetinn.

Verkalýðsforkólfar hafa stigið fram og gagnrýnt Biden fyrir afstöðu hans en beðið þingið að koma með lögum á kjarasamningi sem félagsmenn fjögurra af tólf stéttarfélögum felldu í atkvæðagreiðslu þar sem í honum var ekkert ákvæði um greitt veikindaleyfi.

„Lestakerfið er enginn vinnustaður til að vera veikur á. Það er hættulegt [...] Það er hvort tveggja óskynsamlegt og óréttlátt að krefjast þess að fólk vinni erfiðisvinnu þegar það er veikt,“ segir í áliti eins stéttarfélaganna fjögurra sem felldu samninginn. Núgildandi samningur gerir ekki ráð fyrir neinum greiðslum komi til veikinda starfsmanna.

Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður styður veikindagreiðslur og hótar að tefja afgreiðslu verkfallsbannsins í deildinni samþykki þingið ekki greitt veikindaleyfi. „Að tryggja greitt sjö daga veikindaleyfi hefði í för með sér heildarkostnað upp á 321 milljón dala á ári [45,5 milljarða ISK] fyrir allan járnbrautariðnaðinn. Það er innan við tvö prósent af hagnaði hans,“ sagði Sanders.

Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert