Ekki framleitt færri bíla síðan 1956

Bifreiðaframleiðsla Breta hefur dregist saman úr 1,3 milljónum bifreiða árlega …
Bifreiðaframleiðsla Breta hefur dregist saman úr 1,3 milljónum bifreiða árlega í 775.014 í fyrra. Formaður samtaka framleiðenda segir Breta þurfa að snúa sér að nýorkubílum og laða til sín fjárfesta án tafar. Myndin er úr verksmiðju Mini í Oxford. Ljósmynd/Motor1.com

Bretar hafa ekki framleitt færri bifreiðar í tæp 70 ár, eða síðan árið 1956, nú þegar bifreiðaframleiðsla þeirra hefur dregist saman úr 1,3 milljónum framleiddra bíla fyrir heimsfaraldurinn niður í 775.014 stykki árið 2021.

Segja Samtök framleiðenda og seljenda vélknúinna ökutækja, The Society of Motor Manufacturers and Traders, að hörgull á íhlutum vegna innflutningstafa meðan á heimsfaraldrinum stóð hafi sett mark sitt á framleiðsluna en raunar tók framleiðslan að dala þegar er Bretar greiddu atkvæði sín árið 2016 um að yfirgefa Evrópusambandið.

Vara framleiðendasamtökin nú við því að Bretar dragist aftur úr hópi annarra bifreiðaframleiðsluþjóða og ákalla stjórnvöld um aðstoð. Bendir Mike Hawes, formaður samtakanna, á að stjórnvöld í Bandaríkjunum hyggist nú verja milljörðum dala í niðurgreiðslur til framleiðenda rafbíla.

„Spennitreyja Evrópusambandsreglna“

Aðfangakeðjur þess iðnaðar, sem liggja um allan heim, muni því draga til sín fjárfesta eins og flugur að ljósi sem muni þyngja breskum bifreiðaframleiðendum enn frekar, telur Hawes. Einn af kostum Brexit hafi einmitt átt að vera lausn Bretlands úr „spennitreyju Evrópusambandsreglna um ríkisaðstoð“ sem hert hafi að svigrúmi ríkisstjórna til að styðja framleiðslugreinar að eigin vali.

Nú telur Hawes hins vegar að á efsta degi gæti staðan orðið sú að Bretland verði jafnvel verr í stakk búið til að styðja lífsnauðsynlegan iðnað en það var fyrir úrsögnina úr ESB. Sagði hann í samtali við þáttinn Today í breska ríkisútvarpinu BBC að Bretland þyrfti að sýna að landið væri opið fyrir viðskiptum og fjárfestingum.

Ekki bætti úr skák fyrir framleiðslutölfræði Bretlands þegar Honda-verksmiðjan í Swindon lagði upp laupana sumarið 2021 auk þess sem Vauxhall-verksmiðjan í Ellesmere Port hætti framleiðslu Vauxhall Astra í apríl í fyrra.

Örfá ár til að bretta upp ermarnar

Hawes telur Breta eftir á í framleiðslu rafbíla þótt þeir hafi reyndar aldrei framleitt fleiri slíka en í fyrra, tæpur þriðjungur framleiðslu ársins gengur annaðhvort fyrir rafmagni eða fellur í flokk svokallaðra tvinnbíla sem nota hvort tveggja rafmagn og jarðefnaeldsneyti.

„Við þurfum að vera á tánum við að tryggja að við höfum það sem þarf til að laða til okkar fjárfesta“ sagði Hawes í Today og lagði ríka áherslu á nauðsyn þess að auka rækilega við framleiðslu rafhlaðna í nýorkubíla, Bretar hefðu ekki nema „örfá ár“ til að bregðast við.

BBC

iNews

Macau Business

mbl.is

Bloggað um fréttina