WHO: Alþjóðlegt neyðarástand ríkir enn

Líklega eru tímamót í Covid-19 faraldrinum, að mati nefndarinnar.
Líklega eru tímamót í Covid-19 faraldrinum, að mati nefndarinnar. AFP/Arun Sankar

Í dag eru þrjú liðin frá því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti yfir hæsta mögulega viðbúnaðarstigi á alþjóðavísu vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þó lítið beri á takmörkunum um þessar mundir víða í heimunum telur stofnunin að enn sé um alþjóðlegt neyðarástand að ræða.

Framkvæmdastjóri WHO segir miklar framfarir hafa átt sér stað á einu ári og að alþjóðasamfélagið sé mun betur statt núna, samanborið við ársbyrjun 2022, þegar Ómíkron-bylgjan stóð sem hæst og um 70 þúsund dauðsföll voru tilkynnt vikulega til stofnunarinnar.

Alls hafa 752 milljón staðfest Covid-smit verið tilkynnt til WHO frá upphafi heimsfaraldursins og 6,8 milljónir dauðsfalla. Stofnunin telur þó sennilegt að fjöldinn sé mun meiri í reynd.

Tímamót í faraldrinum

Neyðarnefnd um Covid-19 á vegum heilbrigðisráðs Sameinuðu þjóðanna fundaði á föstudaginn í 14. skiptið frá upphafi heimsfaraldursins.

Í kjölfar fundarins gaf WHO út yfirlýsingu þar sem haft er eftir framkvæmdastjóranum Tedros Adhanom Ghebreyesus að enn sé talin ástæða fyrir því að neyðarástand ríki vegna sjúkdómsins á alþjóðavísu.

Þá kom einnig fram að líklega væri komið að tímamótum í faraldrinum. Ghebreyesus segir öll ráð nefndarinnar, um hvernig megi takast á við þessar breytingar og einnig draga úr neikvæðum afleiðingum, vel þegin.

Rúmur helmingur tilkynntra dauðsfalla í Kína

Þegar Ómíkron-bylgjan stóð sem hæst fyrir ári síðan voru 70 þúsund dauðsföll tilkynnt til WHO í hverri viku, að sögn Ghebreyesus.

Í október á síðasta ári var vikulegur fjöldi tilkynntra dauðsfalla kominn niður fyrir 10 þúsund en hann tók að hækka á ný í desember þegar að stjórnvöld í Kína hófu að slaka verulega á samkomutakmörkunum.

Um miðjan janúar voru um 40 þúsund dauðsföll tilkynnt og má rekja rúman helming þeirra til Kína. Ghebreyesus taldi þó líklegt að dauðsföllin þar væru mun fleiri en þessar tölur gefa til kynna.

mbl.is

Bloggað um fréttina