Lét dæla milljónum lítra úr lóni til að finna símann

Maðurinn missti Samsung síma sinn ofan í lónið. Myndin tengist …
Maðurinn missti Samsung síma sinn ofan í lónið. Myndin tengist frétt ekki beint. AFP

Starfmanni matvælaeftirlitsins í Indlandi hefur verið vikið úr starfi eftir að hann lét tæma uppistöðulón Kherkatta-stíflu í Chhattisgarh–ríki. Lét hann tæma lónið eftir að hafa misst farsíma sinn ofan í það þegar hann var að taka sjálfu af sér. 

Um tveimur milljónum lítra af vatni var dælt upp úr lóninu.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að síminn, sem var frá Samsung, hafi verið gegnsýrður af vatni þegar hann fannst og ekki virkað. Starfsmaðurinn á að hafa sagt viðkvæm skjöl hafa verið á símanum og þess vegna hafi þurft að tæma lónið.

Áður en hann lét tæma lónið höfðu kafarar leitað símans en ekki fundið. Lónið var tæmt með dælu sem knúin er af dísilolíu.

Segir vatnið ekki hafa verið nothæft

Í kjölfar atviksins hefur maðurinn verið sakaður um að misnota stöðu sína en embættismaðurinn heldur því fram að hann hafi haft munnlegt leyfi til gjörningsins og sá sem hafi veitt leyfið hafi sagt dælinguna fína fyrir bændur í nágreninu.

Hann hafi einnig haldið því fram að vatnið sem um ræðir hafi ekki verið nothæft.

Málið er til skoðunar hjá indverskum yfirvöldum og hefur manninum verið vikið úr starfi á meðan.

mbl.is