Sérstakur saksóknari útnefndur í máli sonar Bidens

Feðgarnir Joe og Hunter Biden.
Feðgarnir Joe og Hunter Biden. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sett meiri þunga í rannsókn sína á málefnum sonar Bandaríkjaforseta, Hunters Biden. Ráðuneytið hefur útnefnt sérstakan saksóknara til að skoða vafasöm viðskipti hans á erlendri grundu.

Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur útnefnt saksóknarann David Weiss frá Delaware. Hann hefur áður rannsakað Hunter Biden fyrir skatta- og vopnalagabrot. Sú rannsókn stendur enn yfir.

Umboð til að halda rannsókn áfram

Sú rannsókn hófst árið 2019 og sagði David Weiss nýlega frá því að rannsóknin hefði leitt hann áfram í öðrum málum.

Dómsmálaráðherrann segir að Weiss hafi beðið um stöðu sérstaks saksónara, svo hann gæti fylgt rannsókn sinni betur eftir.

Hunter Biden hefur sætt skoðun Bandaríkjaþings vegna viðskipta sem hann átti í Kína, Úkraínu og víðar. Viðskiptin áttu sér stað meðal annars á árunum 2009-2017, þegar faðir hans, Joe Biden, gegndi embætti varaforseta Bandaríkjanna.

Joe Biden nýttur í viðskiptagjörningum

Gamall viðskiptafélagi Hunters Biden hefur sagt frá því að Hunter hafi gjarnan kallað til föður sinn í símtöl við erlenda aðila til að liðka fyrir viðskiptum.

Repúblikanar halda því fram að Joe Biden hafi notað stöðu sína sem varaforseti til að hjálpa til í viðskiptum sonar síns. Þessu neitar Joe Biden.

Útnefning sérstaks saksóknara kemur á sama tíma og Joe Biden óskar endurkjörs sem forseti. Líklegt er að slagurinn verði við mótherjann Donald Trump. Trump er líka til skoðunar hjá öðrum sérstökum saksóknara, Jack Smith, fyrir fjölda meintra brota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka