Þingforseti beðst velvirðingar á glappaskoti

Selenskí í heimsókn sinni í þinginu ásamt Anthony Rota, lengst …
Selenskí í heimsókn sinni í þinginu ásamt Anthony Rota, lengst til vinstri, Justin Trudeau og Raymonde Gagne, forseta efri deildar þingsins. AFP/Patrick Doyle

Anthony Rota, forseti neðri deildar kanadíska þingsins, hefur beðist afsökunar á að hafa kallað úkraínskan mann, sem starfaði með nasistum í síðari heimsstyrjöldinni, úkraínska og kanadíska hetju og kveðst taka fulla ábyrgð á orðum sínum.

Sá sem Rota beindi orðum sínum til er Yaroslav Hunka, 98 ára gamall maður sem var meðal þeirra sem heimsóttu kanadíska þinghúsið meðan á heimsókn Volódimír Selenskí, forseta Úkraínu, stóð í síðustu viku.

Laut stjórn nasista í 14. flugsveit

Rota hrósaði Hunka fyrir að hafa barist gegn Rússum í styrjöldinni en það gerðu þúsundir Úkraínumanna sem bandamenn Þjóðverja. Milljónir til viðbótar börðust hins vegar með Rauða hernum sovéska.

Hunka laut hins vegar stjórn nasista við störf sín í 14. Waffen SS-flugsveitinni og mótmælti kanadíska gyðingahreyfingin CIJA orðum þingforsetans harðlega með þeim orðum að félögum hennar þætti verulega ámælisvert að fyrrverandi hermaður nasista væri hylltur í kanadíska þinginu.

Kvaðst Rota hafa fengið frekari upplýsingar um Hunka eftir að hann heiðraði hann og bað þingheim að veita honum lófaklapp.

„Hvorki skrifstofu forsætisráðherra né úkraínsku sendinefndinni var tilkynnt um boðið eða heiðrunina fyrir fram,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu Justin Trudeo forsætisráðherra og þar átt við að Hunka hefði verið meðal þeirra sem boðið var að heimsækja þingið samtímis Selenskí.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert