„Tóku þátt í hryðjuverkum gegn Ísrael“

Daniel Hagari.
Daniel Hagari. AFP

Talsmenn Ísraelshers sögðu í dag að þeir sem féllu í árás á ræðismannsskrifstofu Írans í Damaskus í Sýrlandi þann 1. apríl hefðu tekið þátt í hryðjuverkum gegn Ísrael.

„Eftir því sem ég best veit voru þeir sem voru myrtir í Damaskus liðsmenn Quds-sveitarinnar. Þetta var fólk sem tók þátt í hryðjuverkum gegn Ísraelsríki,“ sagði Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, við fréttamenn í dag.

Hagari sagði að meðal þessara hryðjuverkamanna hafi verið liðsmenn Hisbollah og íranskir aðstoðarmenn.

Enginn óbreyttur borgari var drepinn

„Það var ekki einn einasti stjórnarerindreki þar eins og ég best veit. Ég veit ekki um neinn óbreyttan borgara sem var drepinn í þessari árás,“ sagði Hagri ennfremur.

Árás Íran á Ísrael á sunnudaginn var andsvar við þessari mannskæðu árás Ísraelsmanna á ræðismannaskrifstofu Írans í Damaskus. Alls létus átta úr sveitum íranskra byltingarvarða í árásinni og voru tveir hershöfðingjar í þeirra hópi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert