NMT kerfinu lokað

Þróunin frá NMT til fjölhæfra fjarskiptatækja af þriðju kynslóð
Þróunin frá NMT til fjölhæfra fjarskiptatækja af þriðju kynslóð mbl.is/Kristinn Ingvarsson
GSM- og 3G-farsímakerfi tóku í dag við hlutverki NMT-kerfisins en Síminn hættir rekstri þess í morgun klukkan 8:15 og slökkti á sendum þess. NMT (Nordiska MobilTelefoni-gruppen) hefur gegnt mikilvægu fjarskiptahlutverki til sjós og lands áratugum saman, en nú er ekki lengur framleiddur búnaður til uppfærslu þess, enda kerfið aðeins starfrækt hér á landi, í Póllandi og Rússlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hefur að undanförnu verið ráðist í umfangsmikla uppbyggingu 3G-kerfisins og eflingu GSM-kerfisins. Verður samanlagt þjónustusvæði þessara kerfa því mun stærra en NMT-svæðið var nokkurn tíma miðað við handsímaþjónustu. Til að mynda eiga kerfin eftir að ná mun betri dreifingu á Vatnajökli og við norðanverðan Mýrdalsjökul.

Einhver svæði sem notið hafa þjónustu NMT munu þó ekki njóta sama sambands og áður. Minnka má eyður í sambandinu með réttum búnaði, til dæmis gervihnattasímum.

Skerðing á nokkrum svæðum

Samkvæmt samantekt Símans mun breytingin hafa lítil sem engin áhrif á þjónustu á Suður- og Suðvesturlandi. Að mestu leyti mun það sama eiga við um Austurland, en á sjó mun sambandið versna næst landi milli Norðfjarðar og Borgarfjarðar.

Þjónusta mun skerðast nokkuð nyrst á Ströndum, innst í Vatnsdal, Svartárdal og kringum Þeistareyki. Annars mun þjónusta lítið skerðast fyrir norðan og vestan.

Á miðhálendinu verður þjónustan að mestu sambærileg og sú sem NMT-kerfið veitti. Hyggur Síminn á frekari uppbyggingu þar næsta árið. GSM- og 3G-kerfi eru þegar í notkun á miðunum og hafa reynst vel.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans segir í tilkynningu: „Síminn hefur rekið NMT kerfið í áratugi og satt að segja þykir okkur svolítið vænt um það en nú er svo komið að dekkun annarra kerfa okkar er sambærileg því sem NMT var og í mörgum tilfellum betri enda þarf fólk ekki lengur að kaupa sérstök NMT handtæki heldur notar 3G/GSM símana sína. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá sjómönnum sem hafa tekið 3G langdræga kerfið í notkun því þeir geta nú notað gagnaflutningsmöguleikana úti á sjó sem væru þeir í landi. “

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Föstudaginn 19. október