Fallið frá málaferlum vegna Fljótsdalsvirkjunar

Náttúruverndarsamtök Íslands, Árni Finnsson framkvæmdastjóri samtakanna, Birgir Sigurðsson rithöfundur, Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur og Hilmar J. Malmquist líffræðingur, hafa fallið frá málsókn á hendur stjórnvöldum og Landsvirkjun til ógildingar leyfi Landsvirkjunar frá 24. apríl 1991 til að virkja Jökulsá á Fljótsdal. Jafnframt hefur verið fallið frá málsókn sem fól í sér kröfu á hendur stjórnvöldum um að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar.

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökunum kemur fram að ástæða þess að málið er fellt niður sé sú að ákveðið hefur verið að vinna mat á umhverfisáhrifum á nýjum virkjunarkosti í þágu stóriðju við Reyðarfjörð í samræmi við gildandi lög. Að auki hefur Landsvirkjun, sem er framkvæmdaraðili, lýst því yfir að það mat verði unnið í fullu samráði við alla aðila sem vilja að verkinu koma. Það sé því afar ólíklegt að Landsvirkjun eða stjórnvöld muni endurvekja fyrri ráðagerðir um Fljótsdalsvirkjun, sem fælu í sér eyðileggingu Eyjabakka, án undangengins mats á umhverfisáhrifum enda vandséð að nokkur erlendur aðili myndi taka þátt í slíkri framkvæmd. Náttúruverndarsamtökin og þeir einstaklingar sem stóðu að málsókninni áskilja sér allan rétt til að höfða mál á ný komi til þess að stjórnvöld snúi við blaðinu og freisti þess að reisa Fljótsdalsvirkjun skv. fyrri áætlunum án þess að vinna mat á umhverfisáhrifum. Náttúruverndarsamtökin telja jafnframt að bráðabirgðaákvæði I við núgildandi lög, sem veitir heimild til undanþágu frá mati á umhverfisáhrifum, sé andstæð EES-rétti. Kvörtun Náttúruverndarsamtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA þar að lútandi er enn í fullu gildi. Ennfremur telja samtökin að fyrrgreint bráðabirgðaákvæði standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Náttúruverndarsamtök Íslands vilja á koma á framfæri þökkum til allra þeirra einstaklinga sem gerðu samtökunum kleyft að hefja þessa málsókn.
mbl.is