Segir Árna hafa beðið um að fá að setja dót í geymsluna

Daníel Helgason, sem starfaði hjá fyrirtæki sem er með rekstur í Þjóðleikhússkjallaranum, segir í yfirlýsingu til fjölmiðla í dag, að Árni Johnsen hafi hringt í sig á þriðjudag og beðið um að fá að setja dót í geymslu fyrirtækisins „vegna þeirra nornaveiða sem stæðu yfir gegn honum".

Í yfirlýsingu Daníels, sem lét af störfum í Þjóðleikhússkjallaranum eftir fund með þjóðleikhússtjóra í dag, segir: „Vegna frétta af dúkamáli Árna Johnsens alþingismanns, þar sem ég kem lítillega við sögu, vil ég koma eftirfrandi á framfæri við fjölmiðla. Þriðjudaginn 17. júlí hringdi Árni Johnsen til mín þar sem ég var við vinnu. Hann sagðist þurfa að koma „einhverju dóti í geymslu þar sem hann gæti bent á það, vegna þeirra nornaveiða sem stæðu yfir gegn honum." Hann óskaði eftir því að fá að setja þetta dót í geymslu fyrirtækis sem ég tengdist og er með rekstur í Þjóðleikhúskjallaranum. Hann nefndi jafnframt að hann hefði rætt þetta mál við húsvörð Þjóðleikhússins, sem ég þekki ekki af öðru en heiðarleika og samviskusemi í vinnu. Á þessum tíma hafði ég aldrei heyrt talað um þann dúk sem síðar hefur verið til umræðu í fjölmiðlum. Hins vegar vissi ég eins og alþjóð að Árni Johnsen var í erfiðum málum. Vegna þess sem Árni hafði eftir húsverðinum og ég veit nú að var ósatt, féllst ég á að hann gæti sett „þetta dót" í geymsluna. Jafnframt er ekki laust við að ég hafi vorkennt Árna og taldi að mál hans gætu ekki versnað mikið meira en orðið var. Síðar sama dag hringir Árni og segir mér að sendibíll sé á leiðinni með dótið í Gufunes og biður mig að vera þar til að opna geymsluna. Þetta gerði ég. Þegar bílinn kom hjálpaði ég bílstjóranum að bera inn margfrægan dúk, sem ég sá þá í fyrsta skipti, og ýmislegt annað, eins og klósettskál og sturtubotn. Það næsta sem gerist í málinu er að Árni hringir til mín á miðvikudagsmorgun og biður mig að opna geymsluna fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins og sýna honum dúkinn. Ég fór og opnaði geymsluna fyrir ljósmyndaranum sem var í fylgd blaðamanns. Ég staðfesti það við blaðamann Morgunblaðsins að dúkurinn hefði verið í geymslunni í viku til tíu daga, eins og Árni hafði beðið mig um að gera. Seinna sama dag hafði fréttamaður Ríkissjónvarpsins samband við mig og spurði út í dúkinn. Ég sagði honum það sama og ég hafði sagt blaðamanni Morgunblaðsins. Þetta var sagt gegn betri vitund og bið ég þessa blaðamenn og ekki síst Stefán Baldursson Þjóðleikhússtjóra afsökunar á þessu. Þá þykir mér mjög leiðinlegt að hafa með þessu átt þátt í að ljúga að almenningi. Með þessu framferði mínu taldi ég mig á engan hátt vera að vernda Árna Johnsen, heldur húsvörð Þjóðleikhússins sem Árni hafði sagt mér að hefði tjáð Þjóðleikhússtjóra að dúkurinn hefði verið fluttur úr Þjóðleikhúsinu í geymsluna í Gufunesi. Þegar ég talaði hins vegar við húsvörðinn seinnipartinn í gær, sagði hann Árna segja ósatt um þetta. Ég vil enn og aftur biðjast afsökunar á því að hafa flækt þetta mál með framburði mínum við fjölmiðla og Þjóðleikhússtjóra og hef að öðru leyti ekkert um málið að segja. Daníel Helgason"
mbl.is