Veitt viðurkenning fyrir að spyrna gegn klámvæðingunni

Guðrún Gunnarsdóttir tók við viðurkenningaskjalinu úr hendi Bergþóru Valsdóttur.
Guðrún Gunnarsdóttir tók við viðurkenningaskjalinu úr hendi Bergþóru Valsdóttur. mbl.is/Halldór Kolbeins

Sjónvarpskonan Guðrún Gunnarsdóttir var í dag sæmd viðurkenningu fyrir að hafa sýnt afgerandi viðspyrnu gegn klámvæðingunni en það var samráðshópur um að styrkja heilbrigðan lífsstíl barna og unglinga sem veitti viðurkenninguna. Guðrún, sem er einn umsjónarmanna þáttarins Ísland í dag á Stöð 2, neitaði að taka viðtal við klámmyndaleikarann Ron Jeremy þegar hann kom hingað til lands í lok október í tengslum við sýningu á heimildamynd um líf hans og störf.

„Ég held að þetta hafi þýðingu fyrir alla sem berjast gegn ofbeldi, því klám er jú ofbeldi,“ sagði Guðrún um þýðingu viðurkenningarinnar. „Sem nýtur þjóðfélagsþegn þá þurfti ég að gera það eins og aðrir. Það kannski kemur á óvart að fólk sem er á móti klámi skuli fá svona mikla athygli sem sýnir að það skortir greinilega umræðu í þjóðfélaginu um klám og annað ofbeldi,“ sagði Guðrún og bætti við að „klám og ofbeldi flæðir átakalaust inn í landið og birtist núna síðast í tölvuleikjum sem eru fullir ofbeldis og þar sem konur eru niðurlægðar. Þetta eru börn og unglingar að leika með og þetta er í öllum fjölmiðlum. Þetta sýnir bara hvar þjóðfélagið er statt að þetta skuli vekja svona mikla athygli.“

Guðrún segist ekki hafa átt von á því að andóf hennar myndi vekja jafn mikla athygli og raunin varð. Hún segir að það hafi ekki verið úthugsað hjá sér að ætla að vekja mikla athygli með því að neita að taka viðtalið. „Ég held að það sé mikilvægt að hafa skoðun á þessu og vera trúr sinni sannfæringu. Ég var það og er það enn. Þessi viðurkenning í dag styrkir frekar í þeirri trú minni að það séu flestir á móti þessu. Það eru flestir á móti ofbeldi og klámi en það virðist vera erfitt að hafa skoðun á því,“ segir Guðrún.

Kallaðar teprur

Hún segist hafa fengið mikil viðbrögð frá fólki. „Það hafa svo margar ungar mæður haft samband við mig og þakkað mér fyrir að hafa komið fram með þessa skoðun. Þær segja að það sé erfitt fyrir þær að lýsa því yfir að þær séu á móti klámi, því þá séu þær kallaðar teprur og fá að heyra það,“ segir Guðrún og bæti við að hún hafi líka fengið að „heyra það“.

Ég gerði mér nú grein fyrir því að ég myndi örugglega fá að heyra það og ég fæ enn að heyra það. Þetta á örugglega eftir að fylgja mér næstu árin og kannski til æviloka að ég sé einhver stórkostleg tepra. En aðalmálið í þessu að er hugsa um börnin okkar og unglingana sem hafa óheftan aðgang að þessu efni. Þar finnst mér að við eigum að spyrna við fótum og sýna þeim fram á að þessir hlutir séu ekki eðlilegir og sjálfsagðir,“ segir Guðrún.

Í tilkynningu samráðshópsins segir að með því að vekja sérstaka athygli á viðbrögðum fréttamanns sem sýni afdráttarlausa afstöðu gegn klámvæðingu í fjölmiðli vilji hópurinn vekja athygli á vægi og áhrifamætti fjölmiðla og um leið fá tækifæri til að þakka þessum fréttamanni fyrir framúrskarandi dómgreind.

Þá segir í fréttatilkynningu að tilurð samráðshópsins megi rekja til haustsins 2001 þegar Félagsþjónustan í Reykjavík, Neyðarmóttakan og Lögreglan í Reykjavík höfðu haft afskipti af málefnum kornungra stúlkna sem voru þátttakendur í áhættusamri kynlífshegðun með eldri mönnum. „Viðtöl við nokkrar stúlkur birtust á íslenskri vefsíðu og fréttir af því voru mjög til umræðu í þjóðfélaginu. Við eftirgrennslan kom í ljós að þetta átti við rök að styðjast og málefni umræddra aðila fór í hefðbundna vinnu og stuðning hjá þeim stofnunum sem málið varðaði.“

Á kostnað þeirra sem ekki hafa val eða styrk til að móta eigin lífsstíl

„Börn og ungt fólk er í sérstökum áhættuhópi þar sem þau geta illa varist slíku og eru oft þolendur ofbeldis sem tengist kynferðislegri misnotkun og niðurlægjandi og sjálfsskemmandi hegðun. Með því að vekja athygli á vandanum, koma á samtali milli fjölmiðla og uppalenda og finna leiðir til að styrkja uppalendur og þá sem vinna almennt að meðferð og forvörnum trúir samráðshópurinn á að vinna megi gegn háskalegri og óaæskilegri þróun klámvæðingar og gildishlöðnum áherslum um frelsi til athafna á kostnað þeirra sem ekki hafa val eða styrk til að móta eigin lífsstíl,“ segir í tilkynningunni.

Í samráðshópnum eru starfsmenn frá eftirtöldum aðilum: Félagsþjónustunni í Reykjavík, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, Neyðarmóttökunni, Lögreglunni í Reykjavík, SAMFOK, Landlæknisembættinu og Menningarmiðstöðinni Gerðubergi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert